Lagabreytingarnar sem Fidesz-flokkur Viktors Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, samþykkti á dögunum snerust fyrst og fremst um hertar refsingar fyrir barnaníð. Við lagabálkinn var hins vegar bætt banni við að börnum yngri en átján ára væri sýnt efni sem sýndi samkynhneigð eða „ýtti undir“ hana. Evrópusambandið hefur nú til skoðunar hvort að lögin standist Evrópulög.
Þegar leiðtogar aðildarríkjanna komu saman til fundar í Brussel sagði Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, að Ungverjar hefðu ekkert lengur með það að gera að vera í sambandinu.
„Langtímamarkmiðið er að knésetja Ungverjaland í þessu máli,“ sagði hann, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar sem er sjálfur samkynhneigður, ætlaði að taka málið beint upp við Orban í Brussel í dag. Sagði hann lögin mismuna samkynhneigðu fólki og útskúfa því.
„Ég ætla að segja honum að það sem hann er að gera í landi sínu er umburðarlaust og það að vera samkynhneigður er ekki val,“ sagði Bettel, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Orban hafnar því að lögin hafi nokkuð með réttindi samkynhneigðra að gera.
„Þetta snýst um rétt barna og foreldra þeirra,“ sagði Orban við fréttamenn.
Undir stjórn Orban hafa ungversk stjórnvöld ítrekað lent upp á kant við Evrópusambandið á undanförnum árum. Evrópskir ráðamenn hafa ítrekað lýst áhyggjum af því að Orban grafi undan sjálfstæði dómstóla og fjölmiðla í landinu.
Í fyrra var lögð fram tillaga um að aðgangur að sameiginlegum sjóðum sambandsins yrði skilyrtur við að ríki virði grundvallarreglur lýðræðisríkja. Ungverjaland og Pólland mótmæltu því og hugðust stöðva samþykkt fjárlaga sambandsins. Samkomulag náðist á lokum um að bera tillöguna undir Evrópudómstólinn.