Herinn framdi valdarán þann 1. febrúar síðastliðinn og hefur ófremdarástand ríkt í landinu síðan þá. Stuðningsmenn lýðræðislega kjörinnar stjórnar landsins hafa mótmælt svo mánuðum skiptir og hefur það ekki bætt ástandið sem ríkir vegna faraldursins. Lýðræðissinnar segja læknana sem voru handteknir hafa starfað náið með lýðræðishreyfingunni og verið í framlínu lýðræðissinna.
Meira en sex þúsund greindust smitaðir af Covid-19 í gær og 286 dóu vegna Covid-19 í gær svo vitað sé. Aldrei hafa fleiri greinst smitaðir eða dáið af völdum veirunnar á einum degi og líkbrennsluhús hafa ekki undan.
Ástandið innan heilbrigðiskerfisins hefur aldrei verið verra og koma covid-sjúklingar víða að lokuðum dyrum vegna fjölda sjúklinga. Þá vilja sumir ekki leita á sjúkrahús vegna viðveru hersins. Því hafa lýðræðissinnaðir læknar boðið upp á gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, bæði símatíma og heimsóknir.
Samkvæmt læknum í Mjanmar og forkólfum lýðræðissinna hafa níu slíkra lækna verið handteknir af hernum í tveimur stærstu borgum Mjanmar, Yangon og Mandalay.