Tugir gróðurelda loga víðsvegar um norðurhluta Alsírs og hafa gert í vikunni. Kamel Beldjoud, innanríkisráðherra, hefur sakað brennuvarga um að kveikja eldana. Samkvæmt frétt Reuters færði hann þó engar sannanir fyrir þeim ásökunum.
„Einungis glæpamenn geta borið ábyrgð á því að fimmtíu eldar kvikna samstundis á nokkrum stöðum,“ sagði Beldjoud.
France24 segir þrjá menn hafa verið handtekna vegna gruns um að þeir hafi kveikt elda.
Reuters segir hermennina hafa dáið á mismunandi stöðum. Einhverjir hafi til dæmis verið við slökkvistörf og aðrir dóu eftir að þeir lokuðust inni vegna eldsins, sem farið hefur hratt yfir. Þá segir varnarmálaráðuneyti landsins að fleiri hermenn hafi brunnið illa.
Hermennirnir sem dóu eru sagðir hafa bjargað um 110 manns frá því að verða eldinum að bráð.

Ayman Benabderrahmane, forsætisráðherra, hefur kallað eftir hjálp frá alþjóðasamfélaginu. Þá sé verið að leita leiða til að útvega flugvélar sem hægt sé að nota til að varpa vatni á eldana.
Eldarnir eru sagðir hafa farið yfir minnst tólf þorp í landinu. Í Kabylie er mikið fjalllendi og eru þar fjölmörg einangruð þorp sem hafa takmarkaðan aðgang að vatni.
Flest dauðsföllin sem staðfest eru hafa átt sér stað nærri Tizi Ouzou, héraðshöfuðborg Kaybylie.
Gróðureldar loga víðsvegar um heim þessa dagana. Þar á meðal í Bandaríkjunum, Kanada, Síberíu, Grikklandi og Tyrklandi.