Það var ljóst fyrir leik að róðurinn yrði erfiður fyrir Blika eftir naumt 2-3 tap á heimavelli í fyrri leik liðanna. Þar skoruðu Skotarnir ef til vill full ódýrt mark eftir fast leikatriði, eitthvað sem Breiðablik passaði sig vel á að myndi ekki gerast í leiknum í Skotlandi.
Eftir markalausan fyrri hálfleik komust heimamenn yfir. Breiðablik var óheppið í varnarleik sínum og heimamenn refsuðu. Leikmenn Blika svekkja sig eflaust á því sem og færunum sem fóru forgörðum í fyrri hálfleik en liðið hefði getað komist yfir í leiknum.
Þá var Jason Daði Svanþórsson einkar sprækur og ekki að sjá að hann hefði verið að spila í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð.
Hér að neðan má sjá mörkin úr leiknum. Ryan Hedges kom Aberdeen yfir en Gísli Eyjólfsson jafnaði metin fyrir Blika. Hedges var hins vegar aftur á ferðinni tuttugu mínútum fyrir leikslok og tryggði Aberdeen 2-1 sigur í leiknum og þar með 5-3 samtals í einvíginu.