Í tilkynningu frá Lyfjastofnun og embætti landlæknis segir að lyfið, sem er í kremformi, sé einungis ætlað til notkunar á húð til meðferðar við bólum og þrymlum sem fylgja húðsjúkdómnum rósroða.
„Lyfjastofnun og embætti landæknis hafa áreiðanlegar upplýsingar um að sjúklingar með COVID-19 hafi tekið lyfið um munn og rökstuddan grun um að það hafi haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér,“ segir í tilkynningunni.
Aukaverkanir geti verið margskonar og er ítrekað lyfið sé alls ekki ætlað til inntöku. Forðast skuli að bera kremið á augnlok, varir og slímhúðir, svo sem í nefi, munni, augum eða í meltingarvegi.
„Aukaverkanir sem geta hlotist af inntöku kremsins eða ofskömmtun ivermektíns geta verið: útbrot, bjúgur, höfuðverkur, sundl, þróttleysi, ógleði, uppköst og niðurgangur. Fleiri aukaverkanir sem tilkynnt hefur verið um eru: krampar, ósamhæfðar vöðvahreyfingar, mæði, kviðverkir, náladofi og ofsakláði.“
Hætta á aukaverkunum geti aukist með notkun stærri skammta lyfja eða ef lyfjaform ætluð til meðhöndlunar á húð eru tekinn um munn þar sem hjálparefni og virka efnið geta valdið ófyrirséðum auka- eða milliverkunum
Áður hefur verið tilkynnt um að Lyfjastofnun hafi upplýsingar um notkun sníkjudýralyfsins Ivermectin við Covid-19 hér á landi, en ekkert bendir þó til þess að lyfið gagnist í baráttunni við kórónuveiruna.
Til að tryggja sem best öryggi lyfjanotenda hefur Lyfjastofnun ákveðið að Z-merkja lyfið og þar með takmarka ávísun þess tímabundið, við sérfræðinga í húðsjúkdómum.