Reykskynjari fór í gang í svonefndu Zvezda-hylki þar sem áhöfn geimstöðvarinnar býr. Rafhlöður voru í hleðslu í hylkinu. Sjö geimfarar eru um borð í geimstöðinni.
Rússneska geimstofnunin Roscosmos segir að öll kerfi geimstöðvarinnar hafi virkað eftir að reykurinn greindist. Áform um geimgöngu síðar í dag eru óbreytt, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Oleg Novitskí, rússneskur geimfari um borð í geimstöðinni, er sagður hafa séð og fundið lykt af reyk og Thomas Pesquet, franskur kollegi hans, hafa fundið lykt af brenndu plasti eða rafeindabúnaði sem lagði frá rússneska hluta geimstöðvarinnar inn í þann bandaríska.
Röð óhappa hefur orðið í Alþjóðlegu geimstöðinni, sem er komin nokkuð til ára sinna, upp á síðkastið. Rússneskir embættismenn telja að hugbúnaðarbilun eða möguleg mannleg mistök hafi valdið því að öll geimstöðin færðist úr hefðbundinni stöðu sinni í júlí.