Innlent

Ökufantur á 210 kílómetra hraða ákærður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu í fyrstu en var stöðvaður á Selásbraut í Reykjavík.
Maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu í fyrstu en var stöðvaður á Selásbraut í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að aka mótorhjóli á 210 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði var níutíu. Hann er sakaður um að hafa stefnt lífi og heilsu annarra vegfarenda í augljósan háska.

Ökumaðurinn var mældur á allt að 210 kílómetra hraða á Suðurlandsvegi, er hann ók vestur Lögbergsbrekku þann 20. júní 2018.

Í ákæru yfir manninum kemur fram að þar hafi hann ekið fram úr öðrum farartækum þar sem framúrakstur var bannaður, án þess að sinna aðgæslu við aksturinn.

Þá er hann sakaður um að hafa ekki sinnt merkjagjöf lögreglu um að hann ætti að stöðva aksturinn.

Maðurinn var síðar stöðvaður af lögreglu á Selásbraut í Reykjavík.

Í ákæru yfir manninum kemur fram að saksóknari telji ökumanninn hafa með akstri sínum raskað umferðaröryggi á alfaraleið. Auk þess á hann að hafa stefnt lífi og heilsu annarra vegfarenda á leið sinni í augljósan háska, þar með talið lögreglumannanna sem gerðu tilraun til að stöðva aksturinn.

Krefst saksóknari þess að maðurinn verði sviptur ökurétti. Mál mannsins er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×