Innlent

Borgar­ráð sam­þykkir stofnun Jafn­­launa­­stofu

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Vísir/Vilhelm

Borgarráð samþykkti í dag einróma að setja á fót sjálfstæða starfseiningu á sviði jafnlaunamála. Starfseiningin ber heitið Jafnlaunastofa og verður einingin sameignarfélag í eigu Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hlutverk Jafnlaunastofu verður meðal annars að aðstoða sveitarfélög að uppfylla jafnlaunaákvæði jafnréttislaga, til dæmis með fræðslu og ráðgjöf.

Gert er ráð fyrir því að verkefnastofa starfsmats flytjist yfir til Jafnlaunastofu en verkefnastofan sér um starfsmat fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Með tilfærslunni verði meðal annars stefnt að því að draga úr launamun en núverandi starfsmatskerfi nær aðeins til grunnlauna.

Í bókun meirihluta borgarráðs segir að með stofnun Jafnlaunastofu gefist tækifæri til að sameina krafta Reykjavíkurborgar og Samtaka íslenskra sveitarfélaga. Launamunur kynjanna hafi minnkað mikið á síðustu árum en að verkinu sé hvergi nærri lokið. Ef litið er til framtíðar megi hugsa sér „að Jafnlaunastofa verði þekkingarsetur jafnlaunamála sem styðji við framfylgd laga um launajafnrétti hér á landi,“ eins og segir í bókuninni.

Þar sem fjárheimildir verða fluttar af mannauðs- og starfsumhverfissviði Reykjavíkurborgar er ekki gert ráð fyrir auknum fjárheimildum vegna stofnunar Jafnlaunastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×