Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að farsóttarhúsinu þann 16. september og handtók þar mann í mjög annarlegu ástandi. Maðurinn var vistaður í fangageymslu en hann er grunaður um líkamsárás og eignarspjöll. Var hann síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. október.
Kom fram í úrskurði Landsréttar að þegar maðurinn var handtekinn hafði hann verið greindur með Covid-19 þann 9. september og því rofið einangrun.
Lögregla fór fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum á dögunum en dómsmál á hendur honum vegna ætlaðra brot hans í nánu sambandi, nytjastulds, þjófnaðar og umferðarlagabrots er til meðferðar hjá héraðsdómi.
Héraðsdómur úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til 12. nóvember næstkomandi og staðfesti Landsréttur þann úrskurð í síðustu viku.