Rudy Guede var látinn laus úr fangelsi vegna góðrar hegðuna í september árið 2019 og var leyft að afplána refsivist á áfangaheimili. Ári síðar fékk Guede reynslulausn. Hann hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu, að sögn New York Times.
Kercher var myrt í íbúð sinni í miðbæ Perugia og fannst látin 1. nóvember árið 2007. Hún hafði verið skorin á háls.
Fimm dögum síðar var Knox, sambýliskona hennar, og Raffaele Sollecito, kærasti Knox, tekin föst og ákærð fyrir að hafa valdið dauða Kercher. Saksóknarar héldu því fram að þau hefðu myrt Kercher í einhvers onar kynlífsleik sem hefði farið út af sporinu.
Guede var handtekinn síðar í sama mánuði en hann var kunningi leigjenda sem bjuggu í sama húsi og Kercher og Knox. Lögreglumenn fundu blóðug fingraför hans og erfðaefni á vettvangi morðsins. Dómstóll dæmdi hann upphaflega í þrjátíu ára fangelsi en hann var mildaður í sextán ár eftir áfrýjun.
Knox og Sollecito sátu af sér fjögur ár í fangelsi á meðan mál þeirra velktist um fyrir ítölskum dómstólum. Þau voru á endanum sýknuð árið 2015. Knox sneri heim til Bandaríkjanna eftir að áfrýjunardómstóll féllst upphaflega á áfrýjun hennar.