Í upphafi kepptu fimmtán aðilar um hönnun brúarinnar en að lokum voru þrjár tillögur valdar til að skoða betur. Í dag var niðurstaða dómnefndar síðan kynnt í Háskólanum í Reykjavík og upplýst að hópur á vegum Eflu verkfræðistofu átti vinningstillöguna.

Eftir tvö til þrjú ár verður risin 270 metra brú frá Kársnesi yfir að Reykjavíkurflugvelli fyrir gangandi, hjólandi og Borgarlínu. Brúin mun stytta mjög ferðatímann á milli Kársnesins og miðborgar Reykjavíkur.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri voru hæstánægðir með vinningstillöguna. Þeir telja að brúin eigi eftir að breyta miklu fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég á auðvitað eftir að skoða útfærsluna nánar. En það að fá þessa tengingu er miklu meiri breyting en ég held við áttum okkur á. Kársnesið færist náttúrlega algerlega inn í Nauthólsvík nánast og öfugt,“ segir Dagur.
Ármann segir brúna stytta leið um 90 þúsund manns í stóru sveitarfélögunum sunnan Reykjavíkur til og frá vinnu. Háskólarnir, Landspítalinn og stjórnsýslan séu fjölmennustu vinnustaðir landsins. Þá styttist ferðatíminn frá Hamraborg í Háskólann í Reykjavík úr um sautján mínútum í sex.
„Sem nýtist nákvæmlega öllum þessum níutíu þúsundum, ekki bara Kópavogsbúum heldur Garðbæingum og Hafnfirðingum líka. Þannig að ég er mjög bjartsýnn á þetta. Þessi tenging og þessi hringur sem verður til hérna í krinigum Fossvoginn með þessu á eftir að auka mjög mikið útivist á svæðinu vil ég meina,“ segir Ármann og borgarstjóri tekur heilshugar undir það.

Bryndís Friðriksdóttir svæðisstjóri höfuðborgarsvæðisins hjá Vegagerðinni segir að innan fárra ára verði síðan byggt yfir Borgarlínuna þar sem hún fer í gegnum háskólaþorpið undir Öskjuhlíð. Nú taki hins vegar við um eins árs hönnunarferli hjá Vegagerðinni vegna brúarinnar.
„Eftir það hefjast framkvæmdir. Þannig að í lok árs 2023, byrjun árs 24 getur fólk farið að njóta þess að fara yfir brúna,“ segir Bryndís.