Real Madrid er nú með átta stiga forskot á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir 2-0 heimasigur gegn nágrönnum sínum í Atletico Madrid.
Heimamenn tóku forystuna strax á 16. mínútu þegar Karim Benzema setti boltann á lofti í netið eftir fyrirgjöf frá Vinicius Junior.
Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.
Vinicius Junior lagði einnig upp seinna mark Real Madrid, en í þetta skipti var það Marco Asensio sem setti boltann í netið á 57. mínútu.
Gestirnir í Atletico Madrid fengu nokkur álitleg færi til að koma sér aftur inn í leikinn, en allt kom fyrir ekki og heimamenn fögnuðu góðum 2-0 sigri í borgarslagnum.
Real Madrid er sem fyrr segir í efsta sæti deildarinnar með 42 stig eftir 17 leiki, átta stigum meira en Sveilla sem situr í öðru sæti. Atletico Madrid sitja hins vegar í því fjórða með 29 stig.