Skallagrímur dró sig úr keppni í Subway-deild kvenna í körfubolta á dögunum. Liðinu hefur gengið afleitlega það sem af er tímabili og mikið gengið á innan vallar sem utan.
Þó Sigrún Sjöfn Ámundadóttir spili í dag með Fjölni þá er hún alin upp í Borgarnesi og hefur verið – ásamt systrum sínum – andlit kvennaliðs félagsins um dágóða stund. Hún sá ekki þessi örlög fyrir sér er hún skipti yfir í Fjölni fyrir yfirstandandi tímabil.
„Þegar ég skipti yfir í Fjölni nú í haust hélt ég að þær myndu halda áfram og vera með ágætlega öflugt lið ásamt því að stefna á að halda sæti sínu og mögulega gera tilkall til þess að komast í úrslitakeppnina. Það var því mjög leiðinlegt að sjá þetta í gær,“ sagði Sigrún Sjöfn í viðtali fyrir helgi.
„Það var ákveðið að rífa þetta fyrir fimm, sex, sjö árum. Mamma og pabbi, systur mínar og Skallagrímur vildu gera öflugt kvennalið. Sem hefur vantað. Það var heldur betur náð að gera það á stuttum tíma. Ríkjandi bikarmeistarar þangað til í haust, stefnan var alltaf að koma með titil heim og það tókst.“
„Ég vona að það verði notaður þessi tími til að byggja upp og ná aftur í öflugt lið, bæði karla – og kvenna megin.“
„Það er náttúrulega leiðinlegt. Maður er búinn að skoða dagatalið og setja niður leiki sem og æfingar í kringum það. Mér finnst alltaf gaman að vera í Borgarnesi og ég á eftir að sakna þeirra,“ sagði Sigrún Sjöfn að endingu.

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.