Innlent

Búið að slökkva í eldi í bak­húsi á Frakka­stíg

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Reykur stígur upp úr þaki á bakhúsi við Frakkastíg.
Reykur stígur upp úr þaki á bakhúsi við Frakkastíg. Vísir/Viktor

Eldur kom upp í viðbyggingu við hús á Frakkastíg 13 í miðbæ Reykjavíkur. Slökkvilið hefur nú lokið störfum og er að fara af vettvangi. 

Þetta staðfesti varðstjóri hjá slökkviliðinu í samtali við fréttastofu. Eldur var tilkynntur til slökkviliðs um klukkan hálf níu í morgun og náði slökkvilið tökum á eldinum fljótlega eftir að það kom á staðinn.

Slökkviliðið hefur rifið þakið af húsinu.Vísir/Viktor

Finnur Hilmarsson, varðstjóri slökkviliðs á vettvangi, segir í samtali við fréttastofu að eldurinn hafi verið staðbundinn í horni bakhússins og verið sé að rífa klæðninguna af þakinu og hlið hússins til þess að fullvissa um að eldurinn sé ekki útbreiddari. Örlítil glóð sé enn í timbri á bak við klæðninguna. 

Enginn var inni í bakhúsinu þegar slökkvilið bar að garði. 

Klippa: Slökkvilið að störfum á Frakkastíg

Finnur segir að betur hafi farið en á horfðist. Þetta hefði getað farið mjög illa ef eldurinn hefði fengið að krauma lengur. 

Gangandi vegfarandi hringdi inn og tilkynnti reyk í bakhúsinu og eld að sögn Finns. 

Íbúi í næsta húsi, sem fréttastofa náði tali af, segist ekki hafa orðið vör við eldinn en hún hafi fundið lyktina af reyknum. Þá hafi slökkvilið ekki verið komið en hún hafi vaknað við að fólk hafi verið að banka á dyrnar hjá fólkinu á Frakkastíg 13. Hún hafi séð að bárujárnið á bakhúsinu hafi verið byrjað að afmyndast og sá eldinn í gegn. 

Klippa: Eldur í húsi á Frakkastíg

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×