Á síðustu tíu dögum hefur þurft að fresta alls tíu leikjum vegna hópsmita hjá liðunum, þar af sex leikjum um nýliðna helgi.
Á föstudag var ákveðið að neyðarfundur yrði haldinn í dag og samkvæmt Daily Mail er niðurstaða þess fundar að gera ekki hlé á ensku úrvalsdeildinni, þrátt fyrir að til að mynda knattspyrnustjórar Brentford og Newcastle hafi kallað eftir því í fjölmiðlum.
Samkvæmt Daily Mail hefðu 14 af úrvalsdeildarfélögunum 20 þurft að samþykkja hlé til að það yrði gert. Meirihluti studdi hins vegar við áætlanir deildarinnar um að reyna til hins ítrasta að halda keppni áfram.
BREAKING: Premier League clubs reject the idea of cancelling a round of Christmas fixtures https://t.co/SvyoddxjPm pic.twitter.com/HMVBewvAse
— MailOnline Sport (@MailSport) December 20, 2021
Enska knattspyrnusambandið hefur hins vegar hætt við að láta endurtaka leiki í 3. og 4. umferð enska bikarsins þegar lið gera jafntefli, samkvæmt heimildum Daily Mail.
Frestaðir leikir
- Brighton - Tottenham, 12. desember
- Brentford - Man United, 14. desember
- Burnley - Watford, 15. desember
- Leicester - Tottenham, 16. desember
- Man Utd - Brighton, 18. desember
- Southampton - Brentford, 18. desember
- Aston Villa - Burnley, 18. desember
- Watford - Crystal Palace, 18. desember
- West Ham - Norwich, 18. desember
- Everton - Leicester, 19. desember
Næstu leikir á Englandi eru í enska deildabikarnum en Arsenal mætir Sunderland annað kvöld og á miðvikudag eru þrír úrvalsdeildarslagir í 8-liða úrslitum keppninnar, þegar Tottenham og West Ham mætast, Brentford og Chelsea, og Liverpool og Leicester.
Næsta umferð í ensku úrvalsdeildinni á nánast öll að fara fram á öðrum degi jóla, næsta sunnudag, en á að ljúka með leik Newcastle og Manchester United næsta mánudag. Önnur jólaumferð fer svo fram dagana 28.-30. desember og sú þriðja 1.-3. janúar.