Körfubolti

Enginn skoraði fleiri stig á Jóla­dag en LeBron

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James er nú stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar á Jóladag.
LeBron James er nú stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar á Jóladag. EPA-EFE/CAROLINE BREHMAN

LeBron James náði merkum áfanga í er Los Angeles Lakers tapaði enn einum leiknum í nótt.

Vængbrotið lið Lakers tók á móti álíka vængbrotnu liði Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Kórónuveiran er að valda usla í Bandaríkjunum og nær öll lið deildarinnar án sterkra leikmanna.

Lakers vonaðist eflaust til að fjarvera Kevin Durant hjá Nets myndi hjálpa þeim að landa sigrinum í nótt en ömurlegur varnarleikur kom í bakið á þeim er liðið tapaði með sjö marka mun, gestirnir frá Brooklyn unnu 122-115.

Hinn 36 ára gamli LeBron James spilaði mest allra á vellinum og var jafnframt stigahæstur með 39 stig, ásamt því að taka 9 fráköst og gefa 7 stoðsendingar.

Með því er LeBron orðinn stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar á Jóladag með 396 stig. Kobe Bryant heitinn var stigahæstur fyrir leik næturinnar með 395 stig en LeBron á nú metið.

Kevin Durant er í 5. sæti listans með 299 stig og hefði eflaust komist enn nær LeBron og Kobe hefði hann spilað í nótt. Þá er Russell Westbrook, samherji LeBron, í 7. sæti með 245 stig. Listann má sjá hér að neðan.

Nets eru sem fyrr á toppi Austurdeildarinnar með 22 sigra og aðeins 9 töp. Lakers eru hins vegar dottnir niður í 7. sæti Vesturdeildar með aðeins 16 sigra og 18 töp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×