Manchester United vann góðan 3-1 sigur er liðið tók á móti Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Scott McTominay kom heimamönnum yfir með hnitmiðuðu skoti strax á áttundu mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Cristiano Ronaldo.
Varnarmaður Burnley, Ben Mee, varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 27. mínútu, áður en Cristiano Ronaldo breytti stöðunni í 3-0 átta mínútum síðar.
Aaron Lennon klóraði í bakkann fyrir gestina stuttu fyrir hálfleik og staðan því 3-1 þegar gengið var til búningsherbergja.
Ekkert var skorað í síðari hálfleik og því varð niðurstaðan 3-1 sigur heimamanna. United lyfti sér upp um eitt sæti í ensku úrvalsdeildinni með sigrinum og situr nú í sjötta sæti með 31 stig, líkt og West Ham sem hefur leikið einum leik meira.
Jóhann Berg lék allan leikinn fyrir Burnley, en liðið situr í 18. sæti með 11 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti í ensku úrvalsdeildinni.