Appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi á nær öllu Vesturlandi og á Suðvesturhorni landsins. Þær taka gildi í kvöld og gilda fram til klukkan sex í fyrramálið.
Nokkuð djúp lægð er fyrir vestan landið og það sem helst er óttast við lægðina er kröftugur öldugangur sem hún skapar. Reikna má með að Vestmannaeyjar, Grindavík og Suðurnesjabær verði helst fyrir barðinu á lægðinni. Áhrifa lægðarinnar gætir þó einnig í Reykjavík, eins og höfuðborgarbúar finna væntanlega vel fyrir þessa stundina.
„Nei, ég á nú ekki von á því að það verði brjálaður öldugangur hér. Við erum svo heppin að það er frekar suðaustlæg átt en við megum þó gera ráð fyrir að það verði talsverður súgur hérna því að þessi mikla alda sem er suður af Reykjanesinu sem þú varst að lýsa áðan, hún leitar hérna inni í flóann og myndar svona áhlaðanda þannig að hér má reikna með að verði hátt í og talsverður súgur í höfninni,“ sagði Guðmundur við Óttar Kolbeinsson Proppé fréttamann í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Á höfuðborgarsvæðinu er gul viðvörun í gildi frá klukkan 22 í kvöld til klukkan sex í fyrramálið. Varað er við suðaustan hvassviðri eða stormi og búast má við snörpum vindhviðum við Kjalarnes. Þá er nokkur úrkoma á svæðinu. Appelsínugul viðvörun er í gildi frá klukkan 21 til 23 við Faxaflóa.
„Mér sýnist að mesti vindurinn verði fyrri hluta nætur og þegar það verður flóð í fyrramálið verður krafturinn farinn úr því. Það verður samt talsvert fyrir því,“ sagði Guðmundur.