Fótbolti

Óbólusettur Cassano á spítala vegna veirunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antonio Cassano umkringdur Spánverjum í úrslitaleik EM 2012.
Antonio Cassano umkringdur Spánverjum í úrslitaleik EM 2012. getty/Alex Grimm

Antonio Cassano, fyrrverandi leikmaður Roma, AC Milan, Real Madrid og fleiri liða, er liggur á spítala vegna kórónuveirunnar.

Cassano var í einangrun yfir hátíðirnar eftir að hafa greinst með veiruna. Líðan hans hefur versnað undanfarna daga og í gær lagðist hann inn á spítala í Genoa. Samkvæmt fjölskyldu Cassanos er hann óbólusettur.

Hinn 39 ára Cassano lagði skóna á hilluna 2017. Hann ólst upp hjá Bari en fór ungur til Roma. Real Madrid keypti Cassano 2006 en honum tókst ekki að sýna sitt rétta andlit í spænsku höfuðborginni.

Cassano náði sér hins vegar vel á strik hjá Sampdoria, hjálpaði liðinu að komast í Meistaradeild Evrópu og fór seinna til AC Milan þar sem hann varð ítalskur meistari 2011. Cassano spilaði svo með Inter, Parma, Sampdoria og Verona áður en ferlinum lauk.

Cassano lék 39 leiki fyrir ítalska landsliðið og skoraði tíu mörk. Hann var í silfurliði Ítalíu á EM 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×