Körfubolti

Sá sem fékk COVID-19 og „stoppaði“ NBA á sínum tíma er aftur smitaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rudy Gobert (númer 27) í leik með of the Utah Jazz á móti Portland Trail Blazers. Hér er hann nýbúinn að troða boltanum í körfu mótherjanna.
Rudy Gobert (númer 27) í leik með of the Utah Jazz á móti Portland Trail Blazers. Hér er hann nýbúinn að troða boltanum í körfu mótherjanna. Getty/Soobum

Franski miðherjinn Rudy Gobert hjá Utah Jazz er aftur smitaður af kórónuveirunni. Þegar það gerðist fyrst hafði það gríðarlegar afleiðingar fyrir NBA-deildina.

Gobert var settir á kórónuveirulista NBA deildarinnar í gær en enginn slíkur listi var til þegar hann fékk veiruna 11. mars 2020.

Í framhaldinu var tekin sú ákvörðun að hætta leik í NBA-deildinni og alls varð fjögurra mánaða hlé á henni áður en hún var kláruð seint um sumarið í Walt Disney garðinum í Flórída fylki.

Smitið hans vakti sérstaka athygli því nokkrum dögum fyrr hafði hann gert lítið úr smithættunni með því að snerta alla hljóðnema fjölmiðlafólks á blaðamannafundi.

Gobert verður ekki með Utah Jazz í kvöld en ekki er vitað hversu lengi hann verður frá.

Gobert spilaði ekki síðasta leik Utah Jazz liðsins á móti Denver á miðvikudagskvöldið vegna veikinda og seinna kom síðan í ljós að hann væri með COVID-19.

Hann bætti þar með í hóp með liðsfélaga sínum Joe Ingles en í upphafi vikunnar var Utah Jazz eina liðið í NBA-deildinni sem var ekki með leikmann á kórónuveirulista NBA.

Rudy Gobert er 29 ára og 216 sentimetra miðherji sem hefur þrisvar sinnum verið valinn besti varnarmaður NBA-deildarinnar. Hann er með 15,5 stig, 15,1 frákast og 2,3 varin skot að meðaltali í leik á þessu tímabili.

125 leikmenn í NBA-deildinni voru á listanum í miðri síðustu viku en sá fjöldi var kominn niður í 56 í gærkvöldi. Alls hafa um þrjú hundruð leikmenn NBA smitast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×