Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, segir að bílstjóri flutningabílsins hafi brugðist hárrétt við þegar hann varð var við eldinn, en verið var að flytja steinull og annað byggingarefni í bílnum.
„Fyrst reynir hann að slökkva, en þegar hann sér að það gengur ekki þá aftengir hann bílinn frá vagninum. Forðaði þannig bílnum frá tjóni. Þegar við mættum á staðinn er leiðindaveður, mjög hvasst, sem torveldaði allt slökkvistarf. Það tók talsverðan tíma að komast í eldsmatinn. Steinull brennur ekki, en allt í kringum hana brann – gólf vagnsins, timburverk í brettum og ýmislegt fleira,“ segir Jóhann.
Slökkvilið mætti svo aftur á svæðið í morgun og er nú unnið að því að ná steinullinni úr bílnum til að hægt sé að slökkva almennilega í glæðum.