Fyrir leik Manchester City og Southampton sem fram fór á laugardaginn hafði City náð í 499 stig í stjóratíð Spánverjans. Liðin skildu jöfn 1-1 og því var stig númer 500 komið í hús hjá stjóranum.
Þessi 500 stig sótti Pep í aðeins 213 leikjum, en það gera rúmlega 2,3 stig að meðaltali í leik. Enginn stjóri hefur náð í 500 stig í færri leikjum en Pep, en áður átti José Mourinho metið. Portúgalinn þurfti 231 leik til að safna jafn mörgum stigum og kollegi sinn.
A look at Pep's incredible impact during his time in the @premierleague! 📊🔥
— Manchester City (@ManCity) January 25, 2022
Download 👉 https://t.co/hquZ2Stav3
Í tilefni af þessu nýjasta meti stjórans ákvað opinber heimasíða Manchester City að fara yfir öll þau met sem Pep hefur sett í stjóratíð sinni, en hér verður litið yfir nokkur þeirra.
Hann var til að mynda einnig sá stjóri sem þurfti fæsta leiki til að ná 300 (125 leikir) og 400 (172 leikir) stigum, og þá hefur ekkert lið skorað 500 mörk í færri leikjum en undir stjórn hans. Það var Englendingurinn Phil Foden sem skoraði mark númer 500 í 7-0 sigri City gegn Leeds í desember.
Þá hefur engum stjóra tekist að vinna 150 deildarleiki í ensku úrvalsdeildinni í færri leikjum en Guardiola, en Spánverjinn þurfti aðeins 204 leiki til að klára það verkefni. Það þýðir að í fyrstu 204 leikjum City undir hans stjórn er liðið með tæplega 74 prósent sigurhlutfall.