Evrópumeistarar Chelsea þurftu framlengingu til að slá C-deildarlið Plymouth Argyle úr leik í fjórðu umferð FA-bikarsins í dag. Lokatölur urðu 2-1 þar sem bakvörðurinn Marcos Alonso skoraði sigurmarkið.
Öllum að óvörum voru það gestirnir í Plymouth sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Macauley Gillesphey skallaði aukaspyrnu Jordan Houghton í netið strax á áttundu mínútu leiksins.
Cesar Azpilicueta jafnaði metin fyrir Chelsea stuttu fyrir hálfleik og staðan var því 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja.
Þrátt fyrir þunga sókna heimamanna í síðari hálfleik tókst þeim ekki að finna sigurmarkið og því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.
Marcos Alonso kom Chelsea loksins yfir með marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks framlengingarinnar eftir stoðsendingur frá Hakim Ziyech.
Gestirnir í Plymouth fengu sitt tækifæri til að jafna metin af vítapunktinum á 117. mínútu, en Ryan Hardie lét Kepa Arrizabalaga verja frá sér.
Niðurstaðan varð því 2-1 sigur Chelsea og þeir verða því í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit FA-bikarsins.