Manchester City vann öruggan 4-1 sigur er liðið tók á móti B-deildarliði Fulham í FA-bikarnum í dag.
Það voru þó gestirnir í Fulham sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Fabio Carvalho kom Fulham yfir strax á fjórðu mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Harry Wilson.
Heimamenn í City voru þó ekki lengi að kippa gestunum niður á jörðina, en Ilkay Gundogan jafnaði metin tveimur mínútum síðar.
John Stones kom City svo yfir með marki á 13. mínútu eftir stoðsendingur frá Kevin de Bruyne og staðan var því 2-1 þegar flautað var til hálfleiks.
Riyad Mahrez breytti stöðunni í 3-1 með marki af vítapunktinum á 53. mínútu og fjórum mínútum síðar var hann aftur á ferðinni þegar hann skoraði fjórða mark heimamanna.
Þetta reyndist seinasta mark leiksins og niðurstaðan varð því 4-1 sigur Manchester City. Englandsmeistararnir verða því í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit FA-bikarsins á morgun.

Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.