Ásakanir Brittany Higgins um þá meðferð sem hún hlaut af hálfu yfirmanna sinna eftir að hún tilkynnti um kynferðisbrotið varð til þess að rannsókn var gerð á vinnustaðarmenningunni í ástralska stjórnkerfinu.
Higgins sat í þingsal þegar Morrison, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og fleiri báðu hana og aðra þolendur kynferðisbrota og annarrar áreitni á vinnustaðnum afsökunar.
„Ég biðst afsökunar, við biðjumst afsökunar. Ég bið Higgins afsökunar á þeim hræðilegu atburðum sem áttu sér stað hér. Þetta átti að vera öruggur staður en breyttist í martröð,“ sagði forsætisráðherrann. „Og mér þykir meira miður en það. Allir þeir sem komu á undan Higgins... en hún sýndi hugrekki þegar hún steig fram og hér erum við.“
Tugþúsundir söfnuðust saman til að mótmæla eftir að Higgins greindi frá nauðguninni og afleiðingum þess að segja frá henni á vinnustaðnum. Morrisson var harðlega gagnrýndur í kjölfarið, fyrir það hvernig ráðherrar í ríkisstjórn hans og aðrir yfirmenn tóku á málinu.
Higgins greindi frá því árið 2019 að samstarfsmaður hennar hefði nauðgað henni á skrifstofu yfirmanns þeirra en á þeim tíma starfaði Higgins fyrir tvo ráðherra. Þegar hún greindi öðrum þeirra, dómsmálaráðherranum Lindu Reynolds, frá árásinni var hún „sett til hliðar“, fékk lítinn stuðning og var hvött til að segja upp störfum.
Opinber rannsókn leiddi í ljós að einn af hverjum þremur starfsmönnum þings og ráðuneyta hefði upplifað kynferðislega áreitni. Þá var niðurstaðan sú að á vinnustöðunum ríkti „karlaklúbbs“ menning sem einkenndist af einelti, kynferðislegri áreitni og kynferðisbrotum.