Rússar sem vilja frið og litlir karlar í Kreml Ólafur Stephensen skrifar 7. mars 2022 09:30 Undanfarna daga hefur mér orðið hugsað til samtals sem ég átti á bekk í sólríkum garði í litlu þorpi skammt frá Moskvu í ágúst 1991, nokkrum mánuðum áður en Sovétríkin liðu undir lok. Ég, 23 ára gamall blaðamaður, sat í garðinum hjá rosknum hjónum (þau voru svo sem eins og sjö árum eldri en ég er í dag), þeim Raísu Vassilíevnu og Lev Mikhaílovítsj, og við ræddum heimsmálin, drukkum heimabruggað vodka og sporðrenndum fersku grænmeti úr garðinum. Ég var dálítið uppnuminn; nýkominn úr heimsókn á safnið í húsi tónskáldsins Tsjajkovskíjs í Klíjn, eins af hinum miklu rússnesku menningarjöfrum sem ég hef dáðst að síðan ég var unglingur. Lev mundi mætavel föðurlandsstríðið mikla, eins og Rússar kalla seinni heimsstyrjöldina – í sókninni til Moskvu höfðu þýzkir hermenn setzt upp í þorpinu og drepið kúna sem fjölskylda hans átti, en hann sagðist engu að síður ekki líta á Þýzkaland eða Vesturlönd yfirleitt sem óvini Rússa. „Auðvitað eigum við að koma á friði alls staðar. Faðir minn dó í stríðinu, auðvitað vil ég hafa frið. Allir Rússar vilja frið, þeir munu ekki ráðast á neinn að fyrra bragði,“ sagði Lev. Bjartsýnin við lok kalda stríðsins Á þessu ferðalagi mínu um Rússland ræddi ég við marga fleiri almenna borgara, sem áttu sér þá ósk heitasta að Rússland mætti búa við frelsi, lýðræði og frið og að fólk nyti sambærilegra lífskjara og á Vesturlöndum. Sem blaðamaður kynntist ég á þessum árum við lok kalda stríðsins mörgu fólki sem barðist fyrir frelsi, lýðræði og mannréttindum í kommúnistaríkjum – eða fyrrverandi kommúnistaríkjum – í Austur-Evrópu, til dæmis ýmsum þátttakendum í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, sem áttu sérstakt tilfinningasamband við Ísland. Ég man vel bjartsýnina sem ríkti og þá góðu tilfinningu að friðurinn í Evrópu væri ekki lengur tryggður með skelfilegu ógnarjafnvægi kjarnorkuvopna, heldur með því að hugsjónir um lýðræði, einstaklingsfrelsi, frið og samstöðu næðu fótfestu um álfuna alla, líka í Rússlandi. Ellefu árum síðar var ég viðstaddur leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Prag í Tékklandi, sem þá var orðið eitt af aðildarríkjunum. Þar fengu sjö ríki, þeirra á meðal Eystrasaltsríkin þrjú, loforð um aðild að bandalaginu. Vaclav Havel, leikskáldið og andófsmaðurinn fyrrverandi sem var fluttur úr fangelsinu í forsetahöllina, flutti þar minnisstæða ræðu. Hann sagði að með ákvörðuninni um stækkun bandalagsins væri sent ótvírætt merki, ekki aðeins til Evrópuríkja heldur til alls heimsins, um að „tímabilinu þegar löndum var með valdi skipt niður á áhrifasvæði, eða þegar hinir sterku kúguðu þá veiku, sé lokið fyrir fullt og allt.“ Þessir atburðir höfðu djúpstæð áhrif á mig eins og margt annað ungt fólk á þessum tíma. Ég hef alla tíð síðan bundið sterkar vonir við mátt Evrópu- og friðarhugsjónarinnar; að þjóðir Evrópu hafi lært af hinum skelfilegu hildarleikjum sem rifu álfuna í sundur í tvígang á fyrri helmingi tuttugustu aldarinnar og kostuðu tugi milljóna mannslífa og ómældar þjáningar. Að aldrei aftur myndi fólk láta ginnast af þjóðrembu, hatri á nágrönnunum og trúnni á sterka lýðskrumarann með lausnirnar. Að fólk myndi ekki láta svipta sig sjálfsögðum mannréttindum á borð við tjáningarfrelsið, kosningaréttinn og réttarríkið heldur rísa fremur upp gegn valdhöfunum. Að aldrei aftur myndu valdasjúkir einræðisherrar steypa ríkjum Evrópu í mannskætt stríð. Á þessum rúmlega þrjátíu árum frá því að ég sat á spjalli við Lev og Raísu þetta heita ágústsíðdegi hefur vissulega margt gengið á og oft hefur maður orðið fyrir vonbrigðum með það hversu lítið menn hafa lært af sögunni, ekki sízt í ríkjum sem hafa ítrekað orðið leiksoppar hennar eins og í Póllandi og Ungverjalandi. En ekkert gat búið mann undir það áfall sem innrás rússneska hersins í Úkraínu er. Hún vegur að þeim meginstoðum, sem friðurinn í okkar heimsálfu hefur byggzt á í tæplega 80 ár. Hún er glæpur gegn Úkraínumönnum, gegn Evrópu, í raun gegn öllu sem hefur áunnizt eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk. Þegar Pútín litli féll í sögu Hliðstæðurnar milli einræðisherranna Vladimírs Pútíns og Adolfs Hitlers eru sláandi. Að ná kjöri til embættis í kosningum og taka sér svo það vald sem manni sýnist; ásælnin í landsvæði nágrannaríkjanna með vísan til sögu, uppruna og tungumáls eða þá öryggissjónarmiða; skoðanakúgunin og ritskoðunin heima fyrir; stuðningur auðmanna og iðnjöfra sem hafa verið keyptir til fylgis við stjórnina; persónudýrkunin og hégóminn; lygarnar, áróðurinn og heilaþvotturinn – endurtekning sögunnar er hrollvekjandi. Myrkraverk Hitlers gagnvart íbúum Sovétríkjanna sitja djúpt í þjóðarminni Rússa, en nú sitja þeir uppi með leiðtoga sem gefur skipanir um sömu stríðsglæpi; hernað á hendur almenningi, sprengjuárásir á íbúðahverfi, skóla og sjúkrahús, eyðileggingu innviða, að svipta fólk vatni, rafmagni, mat og öðrum lífsnauðsynjum. Ég trúi því að yfirgnæfandi meirihluti Rússa hugsi eins og Lev Mikhaílovítsj, að þeir styðji ekki að land þeirra ráðist á nágrannaríki að fyrra bragði. En valdasjúklingarnir í Kreml hafa yfirhöndina af því að í Rússlandi hefur lýðræðið verið fótum troðið. Þessi mikla þjóð á betra skilið en að þar komist ævinlega ný glæpaklíka til valda eftir að þeirri síðustu hefur verið steypt af stóli. Ég hef megnustu skömm á löndum mínum, sem reyna að réttlæta gjörðir Pútíns eða sýna þeim „skilning“. Þeir sem eru búnir að koma sér fyrir í því horni umræðunnar virðast allsendis firrtir þeim skelfilega veruleika sem nú blasir við í Evrópu: Í stóru, fjölmennu ríki í okkar heimsálfu er barizt upp á líf og dauða. Það er engin leið að nota „sjaldan veldur einn þá tveir deila“ eða „er þetta nú eitthvað verra en ...“-röksemdafærsluna sem við sjáum sums staðar í óupplýstum afkimum samfélags- og fjölmiðla. Öflugt herveldi ræðst með ofurefli á friðsamt nágrannaríki sem ógnar því ekki á nokkurn hátt nema með því að sýna hvernig lýðræðið gæti litið út í Rússlandi. Genfarsáttmálinn er þverbrotinn oft á hverjum klukkutíma; stríðsglæpir eiga sér stað fyrir framan sjónvarpsmyndavélar og sönnunargögnin varðveitast á ótal snjallsímamyndskeiðum. Illmennið í Moskvu teflir fram óhörðnuðum ungmennum sem fallbyssufóðri; drengjum á aldur við syni mína sem vissu jafnvel ekki að þeir væru á leiðinni í stríð. Vel á aðra milljón manna hefur flúið heimili sín; fleiri Evrópumenn hafa ekki verið á flótta frá því 1945. Úkraínumenn sýna sannkallaðar hetjudáðir þegar þeir verja land sitt fyrir ofureflinu; fjölskyldufeður koma fólkinu sínu úr landi og snúa svo aftur til að berjast. Við í herlausa, friðsama landinu getum ekki einu sinni ímyndað okkur þær fórnir sem fólk þarf að færa. Það er engin önnur leið Innrásin í Úkraínu er heimssögulegur atburður af þeirri stærðargráðu að hver einasta hugsandi manneskja verður að gera upp hug sinn til hans. Við neyðumst til að leita aftur í söguna og velta upp spurningum eins og þeirri hvað lýðræðisríkin hefðu getað gert til að stöðva Hitler strax árið 1938, í stað þess að friðmælast við hann og leyfa honum að taka Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu. Sjaldan eða aldrei hefur samstaða frjálslyndra lýðræðisríkja skipt jafnmiklu máli. Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið leika lykilhlutverk í því að stöðva hið sturlaða illmenni 21. aldarinnar, Vladimír Pútín. Sumir hafa orð á að samstaða Vesturlanda undanfarna daga um stuðning við Úkraínu, til dæmis með vopnasendingum, og um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi komi á óvart. Mér kemur hún ekki á óvart. Það er engin önnur leið – og við þurfum að ganga enn lengra. Markmiðið með þvingunum Vesturlanda verður að vera að skaða stríðsvél Pútíns og lífsstíl hinnar spilltu yfirstéttar í Rússlandi sem fylgir honum að málum. Bann við því að kaupa olíu og gas af Rússum er næst á dagskrá. Það verður sársaukafullt fyrir Vesturlönd. Almenningur í vestrænum ríkjum, líka hér á landi, getur þurft að taka á sig byrðar vegna hækkandi orkuverðs. Það eru smámunir miðað við þær þjáningar, sem úkraínska þjóðin þarf að þola. Og það er líka afskaplega lágt verð að gjalda ef það má verða til þess að við getum stöðvað varmennið í Kreml, sem fetar óhikað í fótspor Adolfs Hitlers og hunzar alla lærdóma sögunnar, líka þær hryllilegu hörmungar sem brjálaðir einræðisherrar hafa leitt yfir rússnesku þjóðina. Ég bið þess heitt og innilega að niðurstaða þessa harmleiks í Evrópu miðri verði sú sem Vaclav Havel vildi; að tímabilinu þegar löndum var með valdi skipt niður á áhrifasvæði, eða þegar hinir sterku kúguðu þá veiku, verði lokið fyrir fullt og allt. Og að vilji almennings í Rússlandi nái fram að ganga; að þetta stórkostlega land fari ekki framar í útþenslu- og árásarstríð til að fullnægja litlum körlum í Kreml. Höfundur er fyrrverandi blaðamaður og fjölskyldufaðir í Smáíbúðahverfinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Innrás Rússa í Úkraínu Mest lesið Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun Skoðun Skoðun Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson skrifar Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson skrifar Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson skrifar Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar Skoðun Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson skrifar Skoðun Vinnum í lausnum Edda Sif Pind Aradóttir skrifar Skoðun Blað brotið í húsnæðismálum: VR Blær afhendir sínar fyrstu íbúðir Halla Gunnarsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson skrifar Skoðun Frelsi til sölu Anton Guðmundsson skrifar Skoðun Loftmengun yfir áramótin og mikilvægi inniloftsgæða allt árið Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir,Árna Benediktsdóttir skrifar Skoðun Leikskólakerfið á krossgötum: Gæði eða hraði? Svava Björg Mörk skrifar Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir skrifar Skoðun Svar við „Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu“ Rajan Parrikar skrifar Skoðun Dýr eiga skilið samúð og umhyggju Anna Berg Samúelsdóttir skrifar Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna skrifar Skoðun Gervigreind og markþjálfun: Samvinna eða samkeppni? Ásta Guðrún Guðbrandsdóttir skrifar Skoðun Bjarni Ben í þátíð Guðmundur Einarsson skrifar Skoðun Ísland og stórveldin Reynir Böðvarsson skrifar Skoðun Brjóstakrabbamein – náum enn meiri árangri með stóraukinni þátttöku í skimun Halla Þorvaldsdóttir skrifar Skoðun Ósvífin olíugjöld kynda undir verðbólgu Ólafur Stephensen skrifar Skoðun Eru skattar og gjöld verðmætasköpun? Bjarnheiður Hallsdóttir skrifar Skoðun Hvað er græni veggurinn að reyna að segja okkur? Bjarki Gunnar Halldórsson skrifar Skoðun Sorg barna - Sektarkennd og samviskubit Matthildur Bjarnadóttir skrifar Skoðun Í leikskóla er gaman – þegar það má mæta Valentina Tinganelli,Eyjólfur Sigurjónsson,Elísabet Erlendsdóttir,Sigrún Torfadóttir,Daniel Karlsson,Særún Ósk Böðvarsdóttir,Anna Margrét Arthúrsdóttir,,Una Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson skrifar Skoðun Hvers vegna hafa Svíar ekki tekið upp evruna? Júlíus Valsson skrifar Skoðun Górillur í postulínsbúð – Nýfrjálshyggjuklíkan tekur völdin Guðröður Atli Jónsson skrifar Skoðun Leikskólakerfið: Samfélagsgildi fram yfir hagnað Svava Björg Mörk skrifar Skoðun Hagræðing í ríkisrekstri: Heilræði fyrir nýja ríkisstjórn Ómar H. Kristmundsson skrifar Skoðun Mikilvægi stöðutöku á stafrænni hæfni fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki Ólína Laxdal,Sólveig Nikulásdóttir skrifar Sjá meira
Undanfarna daga hefur mér orðið hugsað til samtals sem ég átti á bekk í sólríkum garði í litlu þorpi skammt frá Moskvu í ágúst 1991, nokkrum mánuðum áður en Sovétríkin liðu undir lok. Ég, 23 ára gamall blaðamaður, sat í garðinum hjá rosknum hjónum (þau voru svo sem eins og sjö árum eldri en ég er í dag), þeim Raísu Vassilíevnu og Lev Mikhaílovítsj, og við ræddum heimsmálin, drukkum heimabruggað vodka og sporðrenndum fersku grænmeti úr garðinum. Ég var dálítið uppnuminn; nýkominn úr heimsókn á safnið í húsi tónskáldsins Tsjajkovskíjs í Klíjn, eins af hinum miklu rússnesku menningarjöfrum sem ég hef dáðst að síðan ég var unglingur. Lev mundi mætavel föðurlandsstríðið mikla, eins og Rússar kalla seinni heimsstyrjöldina – í sókninni til Moskvu höfðu þýzkir hermenn setzt upp í þorpinu og drepið kúna sem fjölskylda hans átti, en hann sagðist engu að síður ekki líta á Þýzkaland eða Vesturlönd yfirleitt sem óvini Rússa. „Auðvitað eigum við að koma á friði alls staðar. Faðir minn dó í stríðinu, auðvitað vil ég hafa frið. Allir Rússar vilja frið, þeir munu ekki ráðast á neinn að fyrra bragði,“ sagði Lev. Bjartsýnin við lok kalda stríðsins Á þessu ferðalagi mínu um Rússland ræddi ég við marga fleiri almenna borgara, sem áttu sér þá ósk heitasta að Rússland mætti búa við frelsi, lýðræði og frið og að fólk nyti sambærilegra lífskjara og á Vesturlöndum. Sem blaðamaður kynntist ég á þessum árum við lok kalda stríðsins mörgu fólki sem barðist fyrir frelsi, lýðræði og mannréttindum í kommúnistaríkjum – eða fyrrverandi kommúnistaríkjum – í Austur-Evrópu, til dæmis ýmsum þátttakendum í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, sem áttu sérstakt tilfinningasamband við Ísland. Ég man vel bjartsýnina sem ríkti og þá góðu tilfinningu að friðurinn í Evrópu væri ekki lengur tryggður með skelfilegu ógnarjafnvægi kjarnorkuvopna, heldur með því að hugsjónir um lýðræði, einstaklingsfrelsi, frið og samstöðu næðu fótfestu um álfuna alla, líka í Rússlandi. Ellefu árum síðar var ég viðstaddur leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Prag í Tékklandi, sem þá var orðið eitt af aðildarríkjunum. Þar fengu sjö ríki, þeirra á meðal Eystrasaltsríkin þrjú, loforð um aðild að bandalaginu. Vaclav Havel, leikskáldið og andófsmaðurinn fyrrverandi sem var fluttur úr fangelsinu í forsetahöllina, flutti þar minnisstæða ræðu. Hann sagði að með ákvörðuninni um stækkun bandalagsins væri sent ótvírætt merki, ekki aðeins til Evrópuríkja heldur til alls heimsins, um að „tímabilinu þegar löndum var með valdi skipt niður á áhrifasvæði, eða þegar hinir sterku kúguðu þá veiku, sé lokið fyrir fullt og allt.“ Þessir atburðir höfðu djúpstæð áhrif á mig eins og margt annað ungt fólk á þessum tíma. Ég hef alla tíð síðan bundið sterkar vonir við mátt Evrópu- og friðarhugsjónarinnar; að þjóðir Evrópu hafi lært af hinum skelfilegu hildarleikjum sem rifu álfuna í sundur í tvígang á fyrri helmingi tuttugustu aldarinnar og kostuðu tugi milljóna mannslífa og ómældar þjáningar. Að aldrei aftur myndi fólk láta ginnast af þjóðrembu, hatri á nágrönnunum og trúnni á sterka lýðskrumarann með lausnirnar. Að fólk myndi ekki láta svipta sig sjálfsögðum mannréttindum á borð við tjáningarfrelsið, kosningaréttinn og réttarríkið heldur rísa fremur upp gegn valdhöfunum. Að aldrei aftur myndu valdasjúkir einræðisherrar steypa ríkjum Evrópu í mannskætt stríð. Á þessum rúmlega þrjátíu árum frá því að ég sat á spjalli við Lev og Raísu þetta heita ágústsíðdegi hefur vissulega margt gengið á og oft hefur maður orðið fyrir vonbrigðum með það hversu lítið menn hafa lært af sögunni, ekki sízt í ríkjum sem hafa ítrekað orðið leiksoppar hennar eins og í Póllandi og Ungverjalandi. En ekkert gat búið mann undir það áfall sem innrás rússneska hersins í Úkraínu er. Hún vegur að þeim meginstoðum, sem friðurinn í okkar heimsálfu hefur byggzt á í tæplega 80 ár. Hún er glæpur gegn Úkraínumönnum, gegn Evrópu, í raun gegn öllu sem hefur áunnizt eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk. Þegar Pútín litli féll í sögu Hliðstæðurnar milli einræðisherranna Vladimírs Pútíns og Adolfs Hitlers eru sláandi. Að ná kjöri til embættis í kosningum og taka sér svo það vald sem manni sýnist; ásælnin í landsvæði nágrannaríkjanna með vísan til sögu, uppruna og tungumáls eða þá öryggissjónarmiða; skoðanakúgunin og ritskoðunin heima fyrir; stuðningur auðmanna og iðnjöfra sem hafa verið keyptir til fylgis við stjórnina; persónudýrkunin og hégóminn; lygarnar, áróðurinn og heilaþvotturinn – endurtekning sögunnar er hrollvekjandi. Myrkraverk Hitlers gagnvart íbúum Sovétríkjanna sitja djúpt í þjóðarminni Rússa, en nú sitja þeir uppi með leiðtoga sem gefur skipanir um sömu stríðsglæpi; hernað á hendur almenningi, sprengjuárásir á íbúðahverfi, skóla og sjúkrahús, eyðileggingu innviða, að svipta fólk vatni, rafmagni, mat og öðrum lífsnauðsynjum. Ég trúi því að yfirgnæfandi meirihluti Rússa hugsi eins og Lev Mikhaílovítsj, að þeir styðji ekki að land þeirra ráðist á nágrannaríki að fyrra bragði. En valdasjúklingarnir í Kreml hafa yfirhöndina af því að í Rússlandi hefur lýðræðið verið fótum troðið. Þessi mikla þjóð á betra skilið en að þar komist ævinlega ný glæpaklíka til valda eftir að þeirri síðustu hefur verið steypt af stóli. Ég hef megnustu skömm á löndum mínum, sem reyna að réttlæta gjörðir Pútíns eða sýna þeim „skilning“. Þeir sem eru búnir að koma sér fyrir í því horni umræðunnar virðast allsendis firrtir þeim skelfilega veruleika sem nú blasir við í Evrópu: Í stóru, fjölmennu ríki í okkar heimsálfu er barizt upp á líf og dauða. Það er engin leið að nota „sjaldan veldur einn þá tveir deila“ eða „er þetta nú eitthvað verra en ...“-röksemdafærsluna sem við sjáum sums staðar í óupplýstum afkimum samfélags- og fjölmiðla. Öflugt herveldi ræðst með ofurefli á friðsamt nágrannaríki sem ógnar því ekki á nokkurn hátt nema með því að sýna hvernig lýðræðið gæti litið út í Rússlandi. Genfarsáttmálinn er þverbrotinn oft á hverjum klukkutíma; stríðsglæpir eiga sér stað fyrir framan sjónvarpsmyndavélar og sönnunargögnin varðveitast á ótal snjallsímamyndskeiðum. Illmennið í Moskvu teflir fram óhörðnuðum ungmennum sem fallbyssufóðri; drengjum á aldur við syni mína sem vissu jafnvel ekki að þeir væru á leiðinni í stríð. Vel á aðra milljón manna hefur flúið heimili sín; fleiri Evrópumenn hafa ekki verið á flótta frá því 1945. Úkraínumenn sýna sannkallaðar hetjudáðir þegar þeir verja land sitt fyrir ofureflinu; fjölskyldufeður koma fólkinu sínu úr landi og snúa svo aftur til að berjast. Við í herlausa, friðsama landinu getum ekki einu sinni ímyndað okkur þær fórnir sem fólk þarf að færa. Það er engin önnur leið Innrásin í Úkraínu er heimssögulegur atburður af þeirri stærðargráðu að hver einasta hugsandi manneskja verður að gera upp hug sinn til hans. Við neyðumst til að leita aftur í söguna og velta upp spurningum eins og þeirri hvað lýðræðisríkin hefðu getað gert til að stöðva Hitler strax árið 1938, í stað þess að friðmælast við hann og leyfa honum að taka Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu. Sjaldan eða aldrei hefur samstaða frjálslyndra lýðræðisríkja skipt jafnmiklu máli. Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið leika lykilhlutverk í því að stöðva hið sturlaða illmenni 21. aldarinnar, Vladimír Pútín. Sumir hafa orð á að samstaða Vesturlanda undanfarna daga um stuðning við Úkraínu, til dæmis með vopnasendingum, og um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi komi á óvart. Mér kemur hún ekki á óvart. Það er engin önnur leið – og við þurfum að ganga enn lengra. Markmiðið með þvingunum Vesturlanda verður að vera að skaða stríðsvél Pútíns og lífsstíl hinnar spilltu yfirstéttar í Rússlandi sem fylgir honum að málum. Bann við því að kaupa olíu og gas af Rússum er næst á dagskrá. Það verður sársaukafullt fyrir Vesturlönd. Almenningur í vestrænum ríkjum, líka hér á landi, getur þurft að taka á sig byrðar vegna hækkandi orkuverðs. Það eru smámunir miðað við þær þjáningar, sem úkraínska þjóðin þarf að þola. Og það er líka afskaplega lágt verð að gjalda ef það má verða til þess að við getum stöðvað varmennið í Kreml, sem fetar óhikað í fótspor Adolfs Hitlers og hunzar alla lærdóma sögunnar, líka þær hryllilegu hörmungar sem brjálaðir einræðisherrar hafa leitt yfir rússnesku þjóðina. Ég bið þess heitt og innilega að niðurstaða þessa harmleiks í Evrópu miðri verði sú sem Vaclav Havel vildi; að tímabilinu þegar löndum var með valdi skipt niður á áhrifasvæði, eða þegar hinir sterku kúguðu þá veiku, verði lokið fyrir fullt og allt. Og að vilji almennings í Rússlandi nái fram að ganga; að þetta stórkostlega land fari ekki framar í útþenslu- og árásarstríð til að fullnægja litlum körlum í Kreml. Höfundur er fyrrverandi blaðamaður og fjölskyldufaðir í Smáíbúðahverfinu.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Skoðun Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Skoðun Blað brotið í húsnæðismálum: VR Blær afhendir sínar fyrstu íbúðir Halla Gunnarsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson skrifar
Skoðun Loftmengun yfir áramótin og mikilvægi inniloftsgæða allt árið Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir,Árna Benediktsdóttir skrifar
Skoðun Brjóstakrabbamein – náum enn meiri árangri með stóraukinni þátttöku í skimun Halla Þorvaldsdóttir skrifar
Skoðun Í leikskóla er gaman – þegar það má mæta Valentina Tinganelli,Eyjólfur Sigurjónsson,Elísabet Erlendsdóttir,Sigrún Torfadóttir,Daniel Karlsson,Særún Ósk Böðvarsdóttir,Anna Margrét Arthúrsdóttir,,Una Guðmundsdóttir skrifar
Skoðun Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson skrifar
Skoðun Mikilvægi stöðutöku á stafrænni hæfni fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki Ólína Laxdal,Sólveig Nikulásdóttir skrifar
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun