Ten Hag, sem hefur stýrt Ajax með góðum árangri frá 2017, þykir líklegastur til að taka við United auk Mauricios Pochettino, knattspyrnustjóra Paris Saint-Germain.
Hollendingurinn virðist vera nokkuð vongóður um að fá starfið hjá United. Hann er allavega byrjaður í enskunámi til að auka möguleika sína á að komast að á Old Trafford.
Samkvæmt heimildum The Times hefur Ten Hag einnig sett sig í samband við leikmenn United, í gegnum milliliði, til að afla sér upplýsinga um liðið sem hann gæti stýrt frá og með næsta tímabili.
Ralf Rangnick, bráðabirgðastjóri United, þykir vera spenntur fyrir Ten Hag en hann mun hjálpa félaginu að finna eftirmann sinn. Leikmenn United ku þó vera spenntari fyrir Pochettino. Starf hans hjá PSG er í hættu eftir að liðið féll úr leik fyrir Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu fyrr í vikunni.
United mætir Tottenham í mikilvægum leik í baráttunni um Meistaradeildarsæti síðdegis á morgun.