Veður

Lægðin beinir til okkar mjög ó­stöðugu lofti og líkur á frekari eldingum

Atli Ísleifsson skrifar
Á meðan éljahryðjurnar ganga yfir má búast við hvössum vindi, segir á vef Veðurstofunnar.
Á meðan éljahryðjurnar ganga yfir má búast við hvössum vindi, segir á vef Veðurstofunnar. Vísir/RAX

Lægðin sem olli óveðri gærdagsins er nú stödd á Grænlandshafi og grynnist smám saman. Lægðin beinir til okkar mjög óstöðugu lofti og í dag verður suðvestlæg átt og víða talsverður éljagangur auk þess sem líkur eru á eldingum.

Frá þessu segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Fréttastofu hefur nú þegar borist um einhverjar tilkynningar um eldingar á höfuðborgarsvæðinu í nótt.

Gular viðvaranir eru í gildi á Suðurlandi, Faxaflóa Breiðafirði og Vestfjörðum fram á kvöld.

„Á meðan éljahryðjurnar ganga yfir má búast við hvössum vindi en þess á milli verður vindurinn mun hægari. Norðaustantil á landinu verður hins vegar yfirleitt þurrt. Kólnandi, allvíða vægt frost seinnipartinn.

Svipað veður á morgun en vindur verður þó heldur hægari.

Seint annað kvöld nálgast svo næstu skil landið. Þau fara hratt yfir og aðfaranótt fimmtudags og á fimmtudags morgun er útlit fyrir skammvinnt suðaustan hvassviðri eða storm með ofankomu í flestum landshlutum.“

Spákortið fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Sunnan og suðvestan 10-18 m/s og éljagangur, en yfirleitt þurrt NA-lands. Frost 0 til 4 stig. Gengur í suðaustan 18-25 á V-verðu landinu um kvöldið og bætir í ofankomu.

Á fimmtudag: Suðvestan 13-20 og él um landið S- og V-vert. Suðaustan hvassviðri eða stormur A-lands um morguninn með snjókomu eða slyddu, en snýst síðan í allhvassa suðvestanátt og styttir upp. Hiti breytist lítið.

Á föstudag: Minnkandi suðvestanátt og él, en þurrt NA-lands. Hiti um og undir frostmarki. Snjókoma eða slydda SA- og A-til síðdegis.

Á laugardag: Suðvestan og vestan 5-13 og dálítil él, en styttir upp á A-verðu landinu. Hiti kringum frostmark.

Á sunnudag og mánudag: Suðlæg átt og dálítil rigning eða slydda, en lengst af þurrt á N- og A-landi. Hlýnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×