Þetta segir Dagur í samtali við Vísi. „Ég er mjög undrandi miðað við þær yfirlýsingar sem hafa komið á þessum vetri og ekki síst í aðdraganda þingkosninga í haust. Þessi fjármálaáætlun nær fram yfir þann 2027, fram yfir næstu þingkosningar og starfstíma ríkisstjórnarinnar.“
Framtíð Laugardalsvallar og Laugardalshallarinnar hafa mikið verið í umræðunni síðustu ár. Hefur mikið verið fjallað um að Laugardalshöllin sé orðin úrelt og stenst ekki alþjóðlegar kröfur sem gerðar eru til slíkra þjóðarleikvanga.
Börn í Laugardal geta ekki beðið lengur
„Þessi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar setur stórt spurningamerki við það hvort verið sé að segja að ekkert muni gerast í þessum málum næstu fimm árin. Ég mun kalla eftir skýringum. Reykjavíkurborg hefur verið alveg skýr hvað það varðar að þessi máli þurfi að skýrast núna. Það er líka alveg ljóst að ekki er hægt að bíða með betri íþróttaaðstöðu fyrir börn í Laugardal.
Það hefur verið spurning hvort ætti að vinna þetta saman, nýjan þjóðarleikvang og nýtt íþróttahús fyrir félögin í Laugardal. Reykjavíkurborg ætlar sér að nýta þá fjármuni sem hafa verið settir til hliðar, um tvo milljarða króna, í að koma upp nýju íþróttahúsi fyrir Þrótt og Ármann í Laugardal,“ segir Dagur, en þar hefur verið rætt um að koma upp húsi á bílaplaninu við gervigrasvöllinn í Laugardal.
Vildi gefa ríkisstjórninni svigrúm
Á íbúafundi í Laugardal þann 14. febrúar nefndi Dagur að hann myndi leggja til við borgarráð þann 5. maí næstkomandi að byggt yrði nýtt íþróttahús í Laugardal ef þjóðarhöll yrði ekki að finna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
„Ég mun óska eftir skýringum, en ég nefndi þennan dag þar sem ég taldi rétt að gefa ríkisstjórninni svigrúm til að klára sín mál og þá yrði búið að ræða fjármálaáætlun á þinginu. Ef svörin yrðu á þá leið að fresta framkvæmdum, þá lægi það fyrir að Reykjavíkurborg gæti ekki beðið.“
Aðspurður um hvenær framkvæmdir við íþróttahús fyrir Þrótt og Ármann gætu þá farið af stað segir Dagur að það gæti verið mjög hratt. Undirbúningsvinna hafi þegar verið unnin, þarfagreining og fleira.