Þetta staðfestir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við Vísi. Hann segir málið vera á borði borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.
„Á meðal þeirra sem lenti í þessu snjóflóði er íslenskur ríkisborgari, hann mun vera einn hinna slösuðu,“ segir Sveinn.
Flóðið féll í fjallinu Steinfjellet og gerði hópurinn neyðarþjónustu á svæðinu viðvart. Norskir fjölmiðlar höfðu áður sagt frá því að þeir sem hafi lent í snjóflóðinu hafi verið ungir karlmenn, erlendir ferðamenn.
Talsmaður Háskólasjúkrahússins í Norður-Noregi (UNN) segir að enginn þeirra sem slösuðust sé alvarlega slasaður.
Fyrr um daginn hafi verið greint frá öðru snjóflóði skammt frá Steinfjellet, í fjallinu Daltinden í Lyngen. Þar höfðu tveir lent í snjóflóði og slasast.