Um sjö hundruð manns taka þátt í varnaræfingunni Norður-Víkingi sem hófst 2. apríl og stendur til fimmtudags. Um er að ræða æfingu sem grundvallast á ákvæðum varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna sem hefur verið haldin reglulega frá árinu 1982.
Í morgun fór fram lendingaræfing bandarískra landgönguliða í Hvalfirði og fóru bæði ráðherra og þingmenn þangað í morgun til að fylgjast með henni.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra var þar stödd sem starfandi utanríkisráðherra á meðan Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er í Lúxemborg á fundum.
![](https://www.visir.is/i/9EBE992E48112D392F91300DF45A1149644522F6C769CDED00A89FEB46BBB293_713x0.jpg)
Áslaug Arna segir æfinguna þýðingarmikla fyrir Ísland og bandalagsríki.
„Við treystum á þessi lönd og þessi bandalagsríki okkar til þess að tryggja öryggi okkar og það skiptir miklu máli að við leggjum okkar að mörkum og það gerum við hér í dag, bæði með Landhelgisgæslunni og með því að leyfa þeim að vera hér í þessum aðstæðum að æfa sig.“
Samvinnan sé sérstaklega mikilvæga á umrótatímum.
Nú hefur herstöð á Íslandi verið nokkuð í umræðunni undanfarið. Er það eitthvað sem kemur til greina - að opna hér herstöð að nýju?
„Við þurfum alltaf að tryggja öryggi okkar með sem bestum hætti. Og það gerum við með þessum ríkjum. Bandalagsríkjum okkar. Þannig það er ekkert útilokað í því.“
Hefur einhver umræða um það farið fram?
„Ekki svo ég viti, nei.“
Samtök hernaðaranstæðinga boðuðu til kræklingatýnslu í Hvalfirðinum í dag. Guttormur Þorsteinsson, formaður samtakanna, var staddur við vegalokun við Ferstiklu þegar fréttastofa náði af honum tali í morgun en einhverjir úr samtökunum höfðu þá þegar komist inn á svæðið
„En svo var fólk rekið í burtu og það var búið að loka þegar ég kom á staðinn.“
Hann segir samtökin einfaldlega ekki hrifin af því að nota Ísland undir hernaðarbrölt.
„Einhverjar æfingar Bandaríkjahers sem hefur nú ýmislegt á samviskunni og sérstaklega þegar það verið að þvæla þessu saman við Landhelgisgæsluna og þessar borgaralegu varnir Íslands í náttúruhamförum,“ segir Guttormur.
Uppfært: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vill koma því á framfæri að engin áform séu um nýja herstöð her á landi. Umræða um það hafi ekki farið fram, líkt og fram komi í fréttinni.