Innlent

Ók á 146 kíló­metra hraða í Hafnar­firði

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði nokkra ökumenn vegna hraðaaksturs í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði nokkra ökumenn vegna hraðaaksturs í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í gærkvöldi ökumann fyrir hraðakstur eftir að hann var mældur á 146 kílómetra hraða í Hafnarfirði, á vegi þar sem hámarkshraði er áttatíu. Ökumaðurinn var sektaður.

Frá þessu segir í dagbók lögreglu, en þar kemur fram að tveir ökumenn til viðbótar hafi verið sektaðir eftir að hafa verið stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í Garðabæ. Í öðru tilvikinu var bílnum ekið á 122 kílómetra hraða og í hinu 125 kílómetra hraða, en ökumennirnir voru báðir sektaðir á vegi þar sem hámarkshraði er áttatíu kílómetrar á klukkustund.

Í dagbók lögreglu segir ennfremur frá því að næturvaktin hafi verið kölluð út eftir að tilkynnt hafi verið um skemmdarverk á bíl í hverfi 104 í Reykjavík. Þá var tilkynnt um mann sem svaf áfengissvefni fyrir utan skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Eftir samtal við lögreglu sagðist maðurinn hafa ætlað að koma sér heim. Sömuleiðis segir frá því að tilkynnt hafi verið um innbrot í hverfi 105 í Reykjavík og að málið sé í rannsókn.

Í hverfi 109 var tilkynnt um innbrot í verslun en þar kom í ljós að engu hafði verið stolið.

Í Grafarvogi var svo tilkynnt um „æstan aðila“ í verslun, en eftir viðræður við lögreglu hafi maðurinn róast og haldið á brott.

Loks segir frá því að í hverfi 110 hafi ökumaður verið stöðvaður fyrir of hraðan akstur. „Kom í ljós að ökumaður var undir áhrifum áfengis og neitaði hann að gefa lögreglu kennitölu sína og gefa í té öndunarsýni í áfengismæli lögreglu. Aðilinn handtekinn fyrir ölvun við akstur og vistaður í fangageymslu lögreglu í þágu rannsóknar máls,“ segir í tilkynningunni frá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×