Hún biðlar til menntamálaráðuneytisins að gefa út samræmda verkferla um ofbeldismál fyrir alla framhaldsskóla landsins.
Þrír nemendur Flesborgarskólans stigu fram í fréttum RÚV um helgina og sögðu skólayfirvöld ekki hafa brugðist við alvarlegu ofbeldismáli sem kom upp eftir árshátíð í mars. Í yfirlýsingu frá skólanum kom þó fram að gerendurnir hefðu allir verið reknir út skólanum, ýmist til skemmri eða lengri tíma og að öllum hefðu verið boðinn stuðningur. Ákveðið rof virðist veraá milli upplifunar nemenda og skólayfirvalda.
Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari, var spurð hvort skólayfirvöld hafi látið hjá líða að upplýsa nemendur þá vinnu sem væri í gangi.
„Við hörmum auðvitað gríðarlega þessa upplifun nemenda og orð fá því auðvitað ekki lýst því þetta eru nemendur okkar. Þetta er unga fólkiðsem við erum að tala við og vinna með á hverjum einasta degi. Þetta er bara eitt af því sem við erum að skoða núna í framhaldinu. Það má vel vera að það hafi ekki komist nægilega vel til skila þau fjölmörgu samtöl sem tekin voru og þær aðgerðir sem við höfum jú gripið til.“
Erla er staðráðin í að ávinna sér traust nemenda eftir að nokkrir þeirra kvörtuðu yfir henni til ráðherra.
„Það er náttúrulega aldrei hugmyndin að þagga eitt eða neitt niður. Við líðum aldrei ofbeldi eða ofbeldismenningu nokkurs konar. Aldrei. Við erum að taka fyrstu skrefin í átt að samtali og sátt og þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna núna á næstu dögum.“
Erla kveðst hafa nýtt verkferla skólans og í raun farið út yfir ystu mörk þess ramma sem skólinn hefur til að leysa svona mál.
„En við erum auðvitað líka búin að kalla eftir samræmdum verkferlum frá ráðuneytinu varðandi ofbeldis mál; kynferðisbrotamál, stafrænt ofbeldi sem er orðið ansi áberandi og fleiri þætti ofbeldis sem við höfum kallað eftir og munum sannarlega gera það núna í framhaldinu.“