Barcelona gerði markalaust jafntefli við Getafe í kvöld þrátt fyrir að stilla upp nánast sínu sterkasta liði. Spánarmeistarar Real Madríd gerðu 1-1 jafntefli við Cádiz.
Mariano Díaz kom Real yfir strax á fimmtu mínútu en Rubén Sobriano jafnaði metin þegar skammt var til loka fyrri hálfleiks. Ekkert var skorað í síðari hálfleik og lauk leiknum með 1-1 jafntefli eins og áður sagði.
Nokkrir af bestu mönnum Real voru hvíldir í dag og ljóst að Carlo Ancelotti, þjálfari liðsins, er kominn með hugann við úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Þá gerðu Atlético Madríd og Sevilla, liðin í 3. og 4. sæti deildarinnar, 1-1 jafntefli. José María Giménez kom Atl. Madríd yfir í fyrri hálfleik en Youssef En Nesyri jafnaði metin þegar fimm mínútur voru til leiksloka.
Þegar ein umferð er eftir af tímabilinu eru Spánarmeistarar Real Madríd með 85 stig á toppi deildarinnar. Börsungar eru í 2. sæti með 73 stig, Atlético Madríd í 3. sæti með 68 stig og Sevilla í fjórða sæti með 67 stig.