Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar, hefur verið sent af stað frá Reykjavík til að aðstoða við aðgerðir en farþegar verða ýmist fluttir aftur í land með ferjunni ef hún kemst af stað eða sóttir með björgunarbátum.
Ekki er ár liðið síðan Baldur varð síðast vélarvana úti á sjó og þá þurfti fólk að bíða í sólarhring í ferjunni. Ásgrímur Ásgrímsson stýrir aðgerðum hjá Landhelgisgæslunni og segir óljóst hvenær fólk muni komist í land.
Boðið upp á áfallahjálp
„Það er ekki alveg ráðið hvort fólk verður tekið í land eða hvort það fari bara með ferjunni ef þeir treysta vélum og annað. Það eru björgunarskip og björgunarbátar á leiðinni eða komnir á svæðið og þyrla Landhelgisgæslunnar er til taks á flugvellinum í Stykkishólmi.“
Ásgeir segir að verið sé að gera ráðstafanir til að taka á móti fólkinu og þeim boðið upp á áfallahjálp ef á þarf að halda. Ferjan stoppaði einungis um þrjú hundruð metra frá landi og Ásgrímur segir að það sé alltaf hætta á ferðum þegar skip séu svo nálægt klettum og landi.
„En þeim hefur tekist aðeins að dýpka á henni, komið vél í gang og gátu siglt aðeins utar svo þeir eru eins og er svona sex til sjö hundruð metra frá landi en akkerið er enn fast í botninum og hefur ekki tekist að ná því upp,“ segir Ásgrímur.
Erfitt að hafa bát með einni vél á þessu svæði
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ferjan Baldur verður vélarvana og hafa íbúar kallað eftir því að fá nýja ferju til að sinna áætlunarferðum hennar.
Aðspurður um hvort það sé tækt að nota Baldur á þessu svæði í ljósi þessara bilana segir Ásgrímur ákjósanlegt að hafa frekar skip með tveimur vélum til að sigla á þessu hafsvæði.
Að sögn Gunnlaugs Grettissonar, framkvæmdastjóri Sæferða sem annast rekstur ferjunnar, hefur Vegagerðin gefið út að ferjunni verði skipt út fyrir Herjólf þriðja haustið 2023. Sú ferja fór nýverið til Færeyja þar sem hún verður nýtt sem vöruflutningaskip í sumar áður en hún kemur aftur til landsins.