Þetta kemur fram á vef Kvikmyndaskólans. Þar segir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskólaráðherra hafi lagt áherslu á að flýta úttektarferli Kvikmyndaskólans. Hún hafi þegar skipað þrjá sérfræðinga til að veita umsögn um skólann sem muni hefja störf nú í júlímánuði. Væntingar skólans séu að þeir hafi lokið störfum 1. september næstkomandi.
Á vef Kvikmyndaskólans kemur einnig fram að skólinn njóti stuðnings Mennta- og barnamálaráðuneytisins, en skólinn hefur starfað undir framhaldsskólaskrifstofu þess ráðuneytis frá árinu 2003. Þar sé lögð áhersla á að yfirfærslan verði sem farsælust fyrir skólann og nemendur hans.
Fram kemur að fyrir liggi staðfestur áhugi Háskóla Íslands á samstarfi við Kvikmyndskólann og að Kvikmyndafræðin innan Hugvísindasviðs Háskólans sé tilbúin með 60 eininga aukagrein til að bæta við 120 eininga diplómunám Kvikmyndaskólans, til BA gráðu með kvikmyndagerð sem aðalgrein.