Myndir frá fyrsta rafknúna fluginu mátti sjá í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2. Flugvélin undir stjórn sænska flugkennarans Rickards Carlsson hóf sig til flugs klukkan 17.26. Um borð var einnig Matthías Sveinbjörnsson, flugmaður hjá Icelandair og forseti Flugmálafélags Íslands, en hann er jafnframt með réttindi flugkennara.
En þetta var ekki aðeins í fyrsta sinn sem menn sáu rafmagnsflugvél hefja sig til flugs og lenda á Íslandi. Á Helluflugvelli sáu menn í fyrsta sinn flugvél hlaðna með rafmagni að lokinni flugferð hérlendis en rafmagnið var leitt með kapli úr flugvallarhúsinu. Innflutt olía var því ekki sett á flugvélina heldur innlend raforka, væntanlega framleidd í virkjunum Landsvirkjunar á hálendinu.

Flugvélin er tveggja sæta af gerðinni Pipistrel. Hún flýgur á 170 kílómetra hraða og hefur, auk varaafls, fimmtíu mínútna flugþol, sem er algengasta lengd flugtíma í kennsluflugi. Um þrjátíu mínútur tekur að endurhlaða rafgeymana.
Með þessu fyrsta reynsluflugi hófst þjálfun fjögurra flugkennara, sem í framhaldinu munu miðla reynslu sinni og þekkingu á rafmagnsflugi til flugnema hérlendis. Helstu flugskólar landsins eru einmitt í hópi þeirra fyrirtækja sem standa að komu flugvélarinnar til landsins.

Eftir lendingu úr fyrsta fluginu var Matthías Sveinbjörnsson, sem þaulvanur þotuflugmaður, spurður hvort mikill munur væri að fljúga í rafmagnsflugvél:
„Þetta er allt annað líf. Þetta er svo einfalt. Einfalt og hljóðlátt og lítill hristingur. Það er bara allt dásamlegt við þetta.“
-Þannig að þetta er framtíðin?
„Klárlega. Þetta er framtíðin, heldur betur. Núna fara í hönd skemmtilegir tímar. Þetta er bara upphafið að byltingu,“ svaraði Matthías.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: