Innlent

Ungi öku­­maðurinn hafi fengið gott til­­­tal

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Ökumaðurinn var aðeins þrettán ára gamall. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Ökumaðurinn var aðeins þrettán ára gamall. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty Images

Þrettán ára gamall ökumaður var stöðvaður af lögreglu í Hafnarfirði laust eftir klukkan fjögur í nótt. Lögregla segir óalgengt að svo ungir ökumenn séu stöðvaðir af lögreglu en Barnavernd var gert viðvart um málið og það leyst með aðkomu foreldra.

Ökumaðurinn hafði keyrt alla leið úr Reykjanesbæ til Hafnarfjarðar. Þrír farþegar voru í bílnum og voru þeir á aldrinum þrettán til fimmtán ára. Spurðir hvert erindi þeirra væri kváðust þeir vera að sækja vin sinn í Hafnarfjörð.

Talskona lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við fréttastofu að lögregla hafi reglulega afskipti af ungum ökumönnum. Hins vegar komi ekki oft fyrir að svo ungir ökumenn séu stöðvaðir.

„Kannski ekki þrettán ára, eins og virtist þarna vera. Þrettán ára, þá ertu náttúrulega ekki orðinn sakhæfur en það er tilkynnint til Barnaverndarnefndar. Það kemur fyrir að krakkar eru að keyra áður en þau fá réttindin en þá er það oft kannski sextán að verða sautján,“ segir talskona lögreglunnar.

Hún segir að Barnavernd hafi samstundis verið gert viðvart og málið leyst í samráði við foreldra. Eðli málsins samkvæmt verði ekki gripið til viðurlaga, enda ökumaðurinn ekki orðinn sakhæfur. 

„Þætti okkar er lokið í þessu máli, það er engin refsing gerð til aðila sem er ekki orðinn sakhæfur. En svo þarf bara að taka gott samtal um alvarleika málsins og það allt saman – sem að sjálfsagt hefur verið gert af lögreglumönnunum sem stöðvuðu ökumanninn. Hann hefur fengið gott tiltal vænti ég,“ bætir hún við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×