Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri, stofnandi Bjartrar framtíðar og fv. aðstoðarmaður borgarstjóra, og Guðmundur Kristján Jónsson, húsasmiður og skipulagsfræðingur, eru foreldrar hins fjórtán mánaða gamla Róberts Högna Heiðusonar. Ísland í dag tók fjölskylduna tali í þætti kvöldsins en Róbert er eitt hinna mörgu leikskólalausu barna í Reykjavík.
Viðtalið gekk ekki vandræðalaust fyrir sig enda sá Róbert eðlilega ekki ástæðu til að stilla kröfum sínum til foreldra sinna í hóf meðan á viðtalinu stóð.
Það má til gamans horfa á viðtalið að ofan og gera tilraun til að einbeita sér alveg að því sem sagt er; hætt er við að athyglin dreifist við hamaganginn. Allt er þetta viðmót ágætt dæmi um veruleika foreldra sem reyna að vinna með börn sín heima, sagði Guðmundur.

„Maður getur rétt ímyndað sér hvernig þetta er fyrir fólk sem þarf að mæta eitthvert, í vaktavinnu á stofnunum eða stórum vinnustöðum, og getur einfaldlega ekki sinnt sinni vinnu eins og við gerum,“ segir Guðmundur Kristján.
Óheiðarleg framganga stjórnmálamanna
Foreldrarnir hafa verið að skipta á milli sín vöktum frá fæðingu Róberts, enda útséð um að hann fái leikskólapláss í haust; líklegra er næsta ár. Fleiri hundruð foreldra eru í sömu stöðu og halda áfram að mótmæla í Ráðhúsinu í fyrramálið, þegar settur verður á fót hústökuleikskóli þar frá 8:45.

Embættismenn hjá Reykjavíkurborg sendu út boð í mars til Heiðu og Guðmunds, og annarra foreldra, um að vonir stæðu til að hægt yrði að bjóða barninu leikskólapláss með haustinu. Slíkt segir Heiða að gerist vart án þrýstings frá stjórnmálamönnum og að það sé óheiðarlegt af stjórnmálamönnunum.
„Það sem við erum ósátt við og það sem er í rauninni ljótur pólitískur leikur eru þau loforð sem voru gefin út í vor um að eins árs börn fengju pláss í september, en það hefur ekki staðist,“ sagði Heiða Kristín. Hún segir að skóla- og frístundasviði hafi verið teflt fram sem „fronti“ á umræðuna svo að hægt væri að skella skuldinni á embættismenn þegar hún yrði ljós.
