Þetta er á meðal þeirra bráðaaðgerða sem meirihlutinn í Reykjavíkurborg kynnti í dag, til að bregðast við við þeim vanda sem skapast hefur í leikskólamálum í borginni, eins og fjallað var um á Vísi í dag.
Reiknað er með að Ævintýraborg geti tekið við hundrað nemendum og að leikskólinn verði opnaður að hluta í september.
Moldarflag og malarhrúgur
Eins og sjá mátti glögglega í kvöldfréttum Stöðvar 2 er leikskólinn hins vegar ekki tilbúinn.
Búið er að koma leikskólahúsnæðinu fyrir en ýmis vinna er þó eftir innandyra áður en hægt er að sinna leikskólanemendum þar inni.

Hvað varðar leikskólalóðina, sem á að þjóna sem útivistarsvæði fyrir leikskólann, þá er hún „alls ekki frágengin,“ eins og Kristín Ólafsdóttir, fréttakona okkar, komst að orði í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Hér eru bara malarhrúgur, moldarflag og nokkur þungavinnutæki. Ekki sérlega barnvænt,“ sagði Kristín en sjá má heimsókn hennar í Ævintýraborg í myndbandinu hér að neðan.
Til þess að opna megi leikskólann sem fyrst ráðgerir meirihlutinn að leggja allt púður í að klára húsnæðið sem fyrst. Ekki verði farið í vinnu á útisvæðinu fyrr en að búið er að klára húsnæðið.
Í millitíðinni þurfa nemendur skólans að láta sér Öskjuhlíðina nægja sem útivistarsvæði, samkvæmt tillögum meirihlutans.