Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá farþegaþotu Icelandair fljúga lágt yfir Vallahverfi í Hafnarfirði í sömu mund og forstjóri félagsins bauð gesti velkomna. Hann sagði svo fyrstu rafmagnsflugvél Íslendinga, sem birtist skömmu síðar, vera framtíðina.

„En aftur að framtíðinni og húsnæðismálunum. Hér ætlum við að byggja eftirsóttasta og besta vinnustað landsins. Það er okkar markmið,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi afhenti svo umsjónarmanni fasteigna félagsins, Jóhanni Úlfarssyni, skóflu sem starfsmenn í viðhaldsskýli Icelandair smíðuðu úr hlutum úr 757 þotu en skófluspaðinn, úr títan-málmi, er úr hreyfilblaði vélarinnar. Tók Jóhann fyrstu skóflustunguna ásamt hópi starfsmanna úr hinum ýmsu deildum.
Nýju höfuðstöðvarnar rísa við þjálfunarsetur félagsins við götuna Flugvelli og verða í fimm þúsund fermetra viðbyggingu, sem áætlað er að verði tilbúin í árslok 2024.

Um leið flytur þetta langstærsta samgöngufyrirtæki landsins úr Reykjavík og úr gömlu Loftleiðabyggingunni, sem upphaflega átti að verða flugstöð. En gæti forstjóri Icelandair séð fyrir sér að gömlu höfuðstöðvarnar verði flugstöð?
„Ég veit það nú ekki. En ég held að það liggi alveg fyrir, og allir eru sammála því, að það þarf að endurbæta flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli, hvernig sem það verður gert. Hún er alls ekki boðleg, hvorki fyrir starfsfólk né farþega, eins og hún er í dag.“

-En væri þetta ekki úrvalshús að leggja undir flugstöð?
„Hugsanlega er þetta bara fínt hús og gæti hentað vel og það verða fasteignaeigendur og aðrir að skoða núna í framhaldinu. Vonandi horfa þeir á þann möguleika,“ svarar Bogi Nils.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Fjallað var um smíði Loftleiðabyggingarinnar í þessari frétt Stöðvar 2 fyrir fimm árum: