Samkvæmt horfum næsta sólarhringinn hjá Veðurstofunni verður vestan stormur víða á landinu í nótt en honum fylgi snarpar vindhviður. Það snúist í norðvestan 20 til 28 metra á sekúndu á morgun, sunnudag.
Hættulegar vindhviður verði á Suðausturlandi og Austurlandi. Búist sé við rigningu nærri sjávarmáli á Norður- og Austurlandi en slydda og snjókoma verði á á heiðum og til fjalla.
Slæmt eða ekkert ferðaveður sé þar sem viðvaranirnar eru í gildi og er fólk hvatt til að ganga frá lausamunum.
Rauð viðvörun hefur verið gefin út fyrir Austfirði en miklar líkur eru sagðar á foktjóni og grjótfoki. Norðvestan rok eða stormur sé væntanlegur 25 til 33 metrar á sekúndu en vindhviður geti farið yfir 45 metra á sekúndu.
Nánari upplýsingar um veðurviðvaranir Veðurstofunnar má sjá hér.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hefur einnig sent frá sér tilkynningu vegna veðursins.
„Á morgun er suðaustanlands og á Austfjörðum spáð er slæmum stormi og áköfum sviptivindum, staðbundið allt að 50-60 m/s. Vegna þessa er hætt við að vegir geti lokast, m.a. hringvegurinn frá Kirkjubæjarklaustri og austur fyrir Djúpavog. Um tíma einnig hviðuveður í Mýrdal og undir Eyjafjöllum,“ skrifar Einar.
Almenningur er hvattur til þess að fara varlega og fylgjast vel með veðurspám og ástandi á vegum.
Fréttin hefur verið uppfærð með tilliti til rauðrar viðvörunar á Austfjörðum.