Enski boltinn

Öll mörkin úr Meistaradeildinni: Sjáðu perlumark Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Trent Alexander-Arnold hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir varnarleik sinn en skoraði stórglæsilegt mark í gærkvöld.
Trent Alexander-Arnold hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir varnarleik sinn en skoraði stórglæsilegt mark í gærkvöld. Getty/Craig Williamson

Barcelona er komið í slæm mál eftir tap gegn Inter í dauðariðlinum og Napoli heldur áfram að slá í gegn og er fyrir ofan Liverpool, í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta. Átta leikir voru spilaðir í gær og nú má sjá mörkin úr þeim öllum hér á Vísi.

Liverpool vann 2-0 sigur gegn Rangers og er með sex stig eftir fyrstu þrjá leiki sína í A-riðli. Trent Alexander-Arnold skoraði fyrra markið á Anfield í gær úr gullfallegri aukaspyrnu og Mohamed Salah bætti við öðru af vítapunktinum.

Klippa: Liverpool - Rangers

Í sama riðli mættust Ajax og Napoli í Amsterdam þar sem gestirnir refsuðu ítrekað fyrir mistök Ajax og unnu magnaðan 6-1 sigur. Napoli er því með fullt hús stiga fyrir seinni helming riðlakeppninnar en Ajax með þrjú stig og Rangers án stiga.

Klippa: Ajax - Napoli

Í dauðariðlinum dugði Inter mark frá Tyrkjanum Hakan Calhanoglu í uppbótartíma fyrri hálfleiks til að vinna afar dýrmætan sigur gegn Barcelona. Börsungar voru hins vegar æfir yfir dómgæslunni í leiknum og töldu að tekið hefði verið af þeim löglegt mark og vítaspyrna.

Klippa: Inter - Barcelona

Inter er nú með sex stig og Barcelona þrjú en Bayern München er efst í C-riðli með fullt hús stiga eftir öruggan 5-0 sigur gegn botnliði Viktoria Plzen, þar sem Leroy Sané skoraði tvö mörk.

Klippa: Bayern - Plzen

Club Brugge heldur áfram að koma á óvart í B-riðli og hefur unnið alla þrjá leiki sína en liðið lagði Atlético Madrid að velli í gær, 2-0.

Klippa: Club Brugge - Atlético Madrid

Í sama riðli náði Porto í sín fyrstu stig með 2-0 sigri gegn Leverkusen og eru því Porto, Leverkusen og Atlético öll jöfn með þrjú stig, sex stigum á eftir Club Brugge.

Klippa: Porto - Leverkusen

Í D-riðli voru engin mörk skoruð í leik Tottenham og Frankfurt í Lundúnum og ljóst að afar mikilvægur slagur bíður liðanna í Þýskalandi eftir viku. 

Þau eru með fjögur stig hvort en Sporting Lissabon er efst í riðlinum með sex stig þrátt fyrir 4-1 tap gegn Marseille sem náði þannig í sín fyrstu stig. Trincao kom Sporting reyndar yfir en Alexis Sánchez jafnaði fljótt eftir skelfileg markmannsmistök og Marseille komst í 3-1 fyrir hálfleik.

Klippa: Marseille - Sporting

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×