Þá verðum við í beinni útsendingu frá Menntaskólanum við Hamrahlíð þar sem hundruð nemenda gengu út úr tíma nú skömmu fyrir hádegi í mótmælaskyni. Nemendur fordæma það sem þeir segja sinnuleysi skólastjórnenda í kynferðisofbeldismálum innan skólans og krefjast breytinga í málaflokknum. Við ræðum við nemendur og heyrum í ræðumönnum.
Formaður allsherjar-og menntamálanefndar Alþingis segir nauðsynlegt að hreinsa út íslenskar sérreglur í útlendingalögum. Hún segir mun meiri sátt ríkja um útlendingamálin í Danmörku og Noregi en á Íslandi og heillast af „norsku aðlögunarstefnunni“ þar sem sveitarfélögin fá talsvert fjármagn til að hjálpa flóttafólki að fóta sig.
Við fjöllum einnig um helstu fréttir erlendis frá og segjum frá niðurstöðum nýrrar könnunar sem sýnir mikla óánægju landsmanna með störf bæði ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar.