Fótbolti

Häcken og Val­geir Lund­dal færast nær sænska meistara­titlinum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Häcken vann góðan sigur í dag.
Häcken vann góðan sigur í dag. Twitter@bkhackenofcl

Bakvörðurinn Valgeir Lunddal Friðriksson lék allan leikinn er Häcken valtaði yfir Sundsvall í sænsku úrvalsdeild karla í fótbolta í dag. Lokatölur 4-1 og Häcken færist nær sænska meistaratitlinum.

Þó sigurinn hafi á endanum verið öruggur þá var staðan 1-1 í hálfleik. Heimamenn stigu hins vegar á bensíngjöfina í síðari hálfleik og hefðu getað unnið 5-1 sigur hefði Alexander Jeremejeff skorað úr vítaspyrnunni sem Häcken fékk undir lok leiks.

Það skiptir þó ekki öllu máli og 4-1 sigur Häcken staðreynd. Valgeir Lunddal lék allan leikinn í stöðu hægri bakvarðar.

Häcken er á toppi deildarinnar með 54 stig eftir 26 leiki en alls leika liðin 30 leiki hvert í sænsku úrvalsdeildinni. Djurgården er með 48 stig í öðru sætinu en á leik til góða. Það þarf því nokkuð mikið að ganga á svo Valgeir Lunddal og félagar standi ekki uppi sem meistarar í loka tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×