Innlent

Hádegisfréttir Bylgjunnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hádegisfréttir Bylgjunnar hefjast klukkan 12.
Hádegisfréttir Bylgjunnar hefjast klukkan 12.

Hrottalegt einelti í Hafnarfirði, meint hryðjuverkaógn, áróðursmyndband Votta Jehóva og ný útlendingalög verða meðal umfjöllunarefna í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.

Foreldrar barna í Hraunvallaskóla eru slegnir yfir frásögn Ísabellu Vonar, sem opnaði sig um hrottalegt einelti í fréttum í gær. Þetta vekur okkur og við þurfum að grípa til aðgerða, segir formaður foreldrafélagsins. Söfnun er hafin til að koma stúlkunni og móður hennar í frí til Flórída.

Verjandi annars mannanna sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um skipulagningu hryðjuverk, segir hann meinleysisgrey sem ekki gæti gert flugu mein. Hann segist enga trú hafa á að mennirnir tveir verði ákærðir fyrir skipulagningu hryðjuverks.

Formaður allsherjar-og menntamálanefndar Alþingis segir það ömurlegt að fordómafullum boðskap sé haldið að börnum í Vottum Jéhóva. Umdeilt kennslumyndband sé hreint út sagt ógeðslegt. Hún segir það mikið inngrip að svipta trúfélag sóknargjöldum en finnst ástæða til að fylgjast með þróuninni hjá Norðmönnum í þessum efnum.

Fjármálaráðherra segir að bregðast verði við meintri misnotkun á hælisleitendakerfinu. Vísbendingar séu uppi um að vegabréf frá Venusúela gangi kaupum og sölum og hælisleitendur væru í skuld við glæpagengi vegna þessa. Dómsmálaráðherra væri að vinna í því að ná sátt um breytingar á útlendingalögum.

Þetta og fleira í hádegisfréttum Bylgjunnar klukkan 12.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×