Í hugleiðingum veðurfræðings segir að vindurinn nái stormstyrk á suðaustanverðu landinu og er gul viðvörun í gildi þar fram á kvöld.
Hvassast verður í Öræfum þar sem búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 metra á sekúndu, sem geta verið hættulegar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.
Veðurstofan gerir ráð fyrir að hiti á landinu verður á bilinu núll til átta stig, hlýjast syðst.
„Á morgun bætir í vindinn norðvestantil og verður allhvass eða hvass vindur þar næstu daga með slyddu. Hægari annars staðar og víða væta. Hiti að mestu 2 til 7 stig að deginum.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Norðaustlæg átt 3-10 m/s, en 10-15 norðvestantil. Rigning eða slydda með köflum fyrir norðan, einkum í fyrstu, en dálítil væta sunnantil. Vaxandi austanátt sunnanlands um kvöldið. Hiti 1 til 7 stig.
Á fimmtudag: Norðaustan hvassviðri á Vestfjörðum, en hægari vindur annars staðar. Rigning eða slydda um landið norðanvert, en úrkomuminna syðra. Hiti 2 til 7 stig.
Á föstudag: Norðaustan 8-15 m/s á Vestfjörðum með slyddu eða snjókomu og hiti um frostmark, en suðlæg eða breytileg átt annars staðar og rigning eða slydda með köflum. Hiti 2 til 7 stig.
Á laugardag: Gengur í stífa suðaustanátt með dálítilli rigningu, en úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 3 til 8 stig þegar líður á daginn.
Á sunnudag: Áframhaldandi stíf suðaustlæg átt með rigningu víða. Hlýnar heldur.
Á mánudag: Útlit fyrir minnkandi suðlæga átt og væta um landið sunnanvert, annars þurrt. Kólnar lítillega.