Fjallað var um áformin í fréttum Stöðvar 2. Þau lúta að því að nýta Litla-Sandfell í Þrengslum sem námu fyrir íblöndunarefni í sement og skipa því út í Þorlákshöfn. Fyrirtækið Heidelberg, sem stendur að verkefninu, fékk húsfylli á kynningarfundi í gærkvöldi en það hafði áður dreift bæklingi þar sem sjá mátti útlitsdrög að byggingum í bænum.

Fyrirhuguð staðsetning bygginga milli fjörunnar norðan bæjarins og hafnarinnar er meðal þess sem Ása Berglind Hjálmarsdóttir, bæjarfulltrúi Íbúalistans, segir fara fyrir brjósið á andstæðingum verkefnisins en hún gagnrýnir þá atvinnustefnu sem meirihluti sjálfstæðismanna stendur fyrir.
„Hugmyndir um stórfellda námuvinnslu í bænum, sem alls ekki er sátt um á þessu stigi. En við sjáum hvert málið þróast,“ segir Ása Berglind, sem efnt hefur til undirskriftasöfnunar gegn verkefninu.

Formaður bæjarráðs, Grétar Ingi Erlendsson, hét því með með skýrum hætti á fundinum í gærkvöldi að íbúar fengju að kjósa um verkefnið, ef það á annað borð kæmist svo langt, en segir það ekki skýrast fyrr en um mitt næsta ár.
„Það er kannski erfitt að rýna of fast í kristalskúluna því við vitum ekki ennþá hvernig þessi verkefni verða,“ segir bæjarstjórinn Elliði Vignisson og bendir á að með skipulagsvaldi leggi sveitarfélagið ákveðnar útlínur.
„Það kemur til að mynda ekki til greina að flytja þrjár milljónir tonna af jarðefnum eftir þjóðvegakerfinu, eins og það er í dag, frá Litla-Sandfelli hingað niður í Þorlákshöfn.“

Þá verði ríkar kröfur gerðar til útlits bygginga og hvorki verði fallist á rykmengun né hljóðmengun.
„Ef að fyrirtækin geta ekki brugðist við þessu eða gengið að þessum forsendum þá er verkefnunum sjálfhætt.
En kurteisi og eðlileg viðbrögð eru að eiga bara í jákvæðum samskiptum og sjá hvort hægt er að láta svona stórhuga framkvæmdir verða að veruleika eða ekki.
Og ef ekki, þá er það þannig. En ef þetta er hægt, í sátt við íbúa, með vilja íbúa, þá græða allir,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: