Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en RÚV greindi fyrst frá. Hann segir að nokkrir hafi verið kallaðir til yfirheyrslu vegna málsins og að lokum hafi einum starfsmanni verið vikið úr starfi.
„Það náðist tiltölulega hratt að fara í gegnum þetta. Þetta var, eins og við sögðum, strax sett í forgang. Að finna út úr þessu,“ segir Ólafur.
Í frétt RÚV segir að ekki sé talið að starfsmaðurinn hafi haft í hyggju að myndskeiðið birtist í fjölmiðlum líkt og gerðist. Allir helstu miðlar birtu myndbandið á þriðjudagskvöld í síðustu viku eftir að það fór í mikla dreifingu.
Daginn eftir að myndbandið var birt kom í ljós að líklega hafði myndbandinu verið lekið af starfsmanni lögreglunnar. Í myndbandinu mátti sjást í tölvuskjá þar sem mátti finna tákn skráningarkerfis lögreglunnar, Löke.
Með uppsögn starfsmannsins telst málið vera leyst.