Belgar úr leik eftir klúður Lukaku

Sindri Sverrisson skrifar
Romelu Lukaku fékk tvö sannkölluð dauðafæri til að skora en nýtti þau ekki.
Romelu Lukaku fékk tvö sannkölluð dauðafæri til að skora en nýtti þau ekki. Getty/Ian MacNicol

Króatía, silfurlið síðasta HM, komst í dag áfram í 16-liða úrslit HM í fótbolta í Katar en sendi um leið Belga heim. Belgar fengu dauðafæri til að komast yfir í seinni hálfleiknum.

Belgía átti þó sinn besta leik á mótinu í dag og Kevin de Bruyne sýndi snilli sína í að opna króatísku vörnina en það dugði ekki til og niðurstaðan varð markalaust jafntefli.

Marokkó tryggði sér sigur í F-riðlinum með því að vinna Kanada en Króatía endaði í 2. sæti og mætir því sigurliðinu úr E-riðli í 16-liða úrslitunum. Spánn er í efsta sæti þess riðils sem stendur.

Romelu Lukaku kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik gegn Króötum og komst næst því að skora. Hann fékk til að mynda tvö sannkölluð dauðafæri. Það fyrra kom eftir klukkutíma leik þegar hann fylgdi á eftir skoti Yannick Carrasco en þrumaði í stöng og út. 

Seinna færið var jafnvel enn betra þegar fyrirgjöf frá hægri fór yfir markvörð og vörn Króatíu, á Lukaku einan á fjærstöng, en hann fékk boltann í brjóstkassann og tókst einhvern veginn ekki að stýra honum í autt markið.

Um gríðarleg vonbrigði er að ræða fyrir Belga, sem sitja í 2. sæti heimslista FIFA, og Króatar svekkja sig sjálfsagt eitthvað á að hafa misst toppsæti riðilsins til Marokkó ef það þýðir að þeir þurfi að mæta Spánverjum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira